Áfram

3. nóvember 2011
Kuldaboli á Reyðarfirði

Unglingahátíðin Kuldaboli var nýlega haldin á Reyðarfirði í annað sinn og gekk glimrandi vel að sögn Þórodds Helgasonar, fræðslustjóra Fjarðabyggðar. Hátíðin stóð frá laugardegi til sunnudags og alls tóku 165 ungmenni þátt. Þau kynntust ýmsum skemmtilegum frístundagreinum og gistu í tjöldum í Fjarðarbyggðarhöllinni. Fjarðaál styrkti Kuldabola með 200 þúsund króna framlagi.

„Hátíðin gekk ákaflega vel fyrir sig og ekki eitt einasta neikvætt atvik kom upp. Vináttan var í fyrsta sæti hjá ungmennunum og á hátíðinni eignuðust margir góða vini og félaga. Framundan er gerð könnunar meðal krakkanna og aðstandenda þeirra þannig að hægt sé að fá raunsanna mynd af því hvernig þátttakendum líkaði hátíðin og fá hugmyndir um það sem betur megi fara. Það er alltaf hægt að gera betur,“ segir Þóroddur, en sjónvarpsþátturinn Landinn mun á næstunni sýna frá Kuldabola.
 
Fjölbreyttar frístundir
Félagsmiðstöðvarnar í Fjarðabyggð skipuleggja Kuldabola í samvinnu við Björgunarsveitir, en á hátíðina er unglingum á Austurlandi í 8.–10. bekk boðið að taka þátt. Á Kuldabola fá krakkarnir m.a. tækifæri tilað kynnast ýmsum mismunandi tómstundagreinum, svo sem  zumba, ketilbjöllum, cross-fit, kassaklifri, fangabrögðum, leikspuna, klettasigi og fleiri greinum. Um kvöldið var farið í leiki, kveiktur verðeldur og haldin bíósýning. Um nóttina gistu krakkarnir í tjöldum í Fjarðabyggðarhöllinni og önnuðust foreldrar ungmenna á Reyðarfirði næturgæslu.
 
Markmið Kuldabola
Markmiðið með Kuldabola er að styrkja starfsemi félagsmiðstöðvanna og efla samskipti milli ungmenna í fjórðungnum. Þetta er einnig frábært tækifæri fyrir ungt fólk á Austurlandi að skoða og fá að kynnast fjölbreyttum og skemmtilegum frístundum.
 
Stuðningur Fjarðaáls
Fjarðaál hefur veitt öllum félagsmiðstöðvunum þremur, sem starfræktar eru í sveitarfélaginu, fjárhagsstyrki til starfsemi sinnar, samtals að upphæð 800 þúsund krónur.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Í Fjarðabyggðarhöllinni var tjald við tjald.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ungmennin settu upp leikrit í Braggabíói og tókst vel.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hressar stelpur á „útihátíð" í október!