Áfram

10. október 2011
Skíðasvæðið í Stafdal gert klárt fyrir veturinn

Í gær, sunnudaginn 9. október tók allnokkur hópur starfsmanna Fjarðaáls að sér margvísleg viðhaldsstörf í sjálfboðavinnu á skíðasvæðinu í Stafdal. Eyddu þeir deginum við að dytta að og gera við og koma öllu í gott stand fyrir skíðavertíðina í vetur.

Þetta er í þriðja sinn sem hópur sjálfboðaliða frá Fjarðaáli vinnur að úrbótum á skíðasvæðinu en þess má geta að fyrirtækið gaf Skíðafélaginu í Stafdal húsið sem nú er notað sem glæsilegur skíðaskáli og flestir kannast við sem ekið hafa Fjarðarheiðina á sl. árum.
 
Samfélagssjóður Alcoa veitir árlega nokkrum milljónum króna til þess að styðja við svokölluð ACTION-verkefni á Austurlandi. Þau felast í því að sjóðurinn styrkir verkefni sem starfsmaður Fjarðaáls leggur til að verði gert með vinnuframlagi hóps starfsmanna. Mætir þá hópurinn á ákveðnum degi og leggur til a.m.k fjögurra klukkustunda vinnuframlag, sem getur verið í þágu félagasamtaka eða stofnunar. Upphæð fjárframlags sjóðsins til samtakanna veltur á því hversu margir starfsmenn taka þátt.
 
Fjölmörg verkefni hafa þegar verið unnin í ár en megináhersla er lögð á sjálfboðavinnuna í októbermánuði ár hvert. Eftir viðhaldsstörfin í Stafdal bíður starfsmanna viðhald á æfingarsvæði Skotfélags Austurlands og lagning skautasvells á Reyðarfirði, en þessi verkefni verða unnin síðar í þessum mánuði.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Glæsilegur hópur sjálfboðaliða


Starfsmenn Fjarðaáls ásamt börnum sínum, sem eyddu saman sunnudeginum 9. október við viðhaldsstörf í Stafdal.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Einbeiting


Snorri Aðalsteinsson við málarastörf í skíðaskálanum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Sælla er að gefa en að þiggja


Bergur Aðalsteinsson gerir við svigstöng fyrir veturinn.