Áfram

7. október 2011
Fjarðaál tekur þátt í bleikum október

Sómastaðabærinn verður baðaðar bleiku ljósi í októbermánuði til þess að minna á átak Krabbameinsfélagsins Bleiku slaufuna, en það er árvekni- og fjáröflunarátak til styrktar baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Starfsmannabyggingin og súrálsfæribandið eru einnig lýst upp með bleiku ljósi og starfsfólk fyrirtækisins efnir til boðhlaups laugardaginn 8. október.

Bleiki mánuðurinn verður settur með trukki hjá Fjarðaáli þann 8. október því þá ætlar starfsfólk hjá álverinu á Reyðarfirði að hlaupa boðhlaup til styrktar krabbameinsfélögum á Austurlandi. Með því að taka þátt safna starfsmenn álversins framlögum frá Samfélagssjóði Alcoa, sem rennur svo óskipt til krabbameinsfélaganna.

Ræst verður frá tveimur stöðum í einu kl. 10:00 á laugardagsmorgninum og hlaupið til Reyðarfjarðar. Anna Björk Hjaltadóttir, starfsmaður álversins, hefur veg og vanda að skipulagningu hlaupsins og segir hún að annars vegar verði ræst frá Vattarnesi sunnan mynnis Reyðarfjarðar og hins vegar frá Litlu-Breiðuvík sem er norðan mynnis.

„Þetta eru um 65 km í heild og auðvitað vonum við að sem flestir sjái sér fært að hlaupa með okkur. Ég vinn að minnsta kosti hörðum höndum að því að safna liði á vinnustaðnum. Þátttakendur fá að sjálfsögðu bleikan bol til að hlaupa í og svo ætlum við að halda upp á þetta að hlaupi loknu með pizzuveislu í Sómasetrinu,“ segir Anna Björk. Fyrirkomulag hlaupsins verður með þeim hætti að þátttakendur geta ákveðið hversu langt þeir vilja fara og hvort þeir vilja hlaupa eða ganga. 

Samfélagssjóður Alcoa hefur undanfarin ár veitt um þremur milljónum króna á ári til þess að styðja við svokölluð ACTION verkefni á Austurlandi. Þau felast í því að starfsmaður Fjarðaáls fær hugmynd að sjálfboðaverkefni í þágu félagasamtaka eða stofnunar, og mætir þá hópur starfsmanna á ákveðnum degi og vinnur í a.m.k. 4 tíma fyrir samtökin. Upphæðin sem rennur til samtakanna veltur á því hversu margir starfsmenn taka þátt, en yfirleitt mæta einnig fjölskyldur þeirra og aðrir áhugasamir um verkefnin hverju sinni.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.