Áfram

26. október 2011
Vélaverkstæði Alcoa Fjarðaáls fyrirtæki ársins að mati Vinnueftirlitsins

Miðgarður, vélaverkstæði Alcoa Fjarðaáls, fékk í gær, þriðjudag, viðurkenningu Vinnueftirlitsins sem fyrirtæki ársins.  Vinnueftirlitið veitir því fyrirtæki viðurkenningu, sem þykir skara framúr á því sviði sem er í kastljósinu ár hvert.

Miðgarður fékk viðurkenninguna fyrir afburða vel skipulagt og snyrtilegt verkstæði. Þar þykir vinnuverndin höfð í hávegum og þar er allur búnaður varðandi öryggismál til staðar. Áhættumat fyrir verkstæðið hefur verið gert og þar er alltaf unnið sérstakt áhættumat áður en farið er í stærri viðhaldsverkefni. Að mati Vinnueftirlitsins þykir vélaverkstæðið standa sig sérstaklega vel varðandi alla þætti sem tengjast viðhaldsvinnu.
 
Evrópska vinnuverndarvikan 2011 er nú haldin dagana 24. - 28. október. Í ár er þemað Öruggt viðhald - Allra hagur, og stóð Vinnueftilitið fyrir ráðstefnu um þálaflokkinn 25. október. Á ráðstefnunni voru flutt erindi og efni sem fjalla um öryggi við viðhaldsvinnu auk þess sem veittar voru viðurkenningar til fyrirtækja sem talin eru standa sig vel á því sviði sem tengist viðhaldsvinnu.
 
Á vef Vinnueftirlitsins er nánar fjallað um mikilvægi vel skipulagðs viðhalds. Þar segir m.a.: „Viðhald og viðgerðir sem framkvæmdar eru eftir að búnaður bilar eru í eðli sínu hættuleg vinna. Þegar bilanir verða kemur upp óvanalegt ástand sem víkur frá venjunni og því sem starfsmenn t.d. í framleiðslufyrirtækjum eru að fást við á hverjum degi. Bilanirnar þýða líka tafir og kostnað og mikill þrýstingur getur verið á að koma hlutunum í lag aftur til að lágmarka tíma- og fjármunatapið. Þarna koma því saman tveir þættir sem geta orsakað slys; óvanalegar aðstæður sem menn jafnvel þekkja ekki að fullu og reyna jafnframt að ráða við á sem allra stystum tíma. Eðli bilana er því þannig að mikil hætta er á slysum í tengslum við þær. Enda sýna tölur að 10-15% af banaslysum við vinnu og 15-20% af öllum vinnuslysum í Evrópu tengjast viðhaldi og viðgerðum.“
 
Lestu meira um mikilvægi vel skipulagðs viðhalds hér.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Viðurkenning móttekin


Fulltrúar Miðgarðs með viðurkenninguna ásamt umdæmisstjóra Vinnueftirlitsins á Austurlandi. F.v. Snorri Jökull Benediktsson viðhaldsleiðtogi Alcoa Fjarðaáli, Þórður Valdimarsson leiðtogi áreiðanleika Alcoa Fjarðaáls og Þorvaldur Hjarðar umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins á Austurlandi.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Snyrtilegasta verkstæði landsins?


Eins og myndin sýnir er allt tandurhreint og glansandi í Miðgarði.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Dæmi um snyrtilegt „húshald"


Húshald á aðalverkstæðinu er til fyrirmyndar og blómin þar hafa vakið verðskuldaða athygli. Starfsmenn á verkstæðinu leggja líka mikinn metnað í blómaræktina. Á þriðjudegi fær hver planta umsjónarmann sem ber ábyrgð á velferð hennar og vökvar hana
á þriðjudegi og fimmtudegi. Umsjónarmaðurinn velur svo eftirmann sinn fyrir næstu viku. Til þess að auðvelda mönnum starfið er í hverjum potti spjald með lýsingu á því hvenær og hvernig eigi að vökva og úða plöntuna.