Áfram

10. október 2011
Starfsmenn Fjarðaáls í bleiku boðhlaupi - til styrktar krabbameinsfélögum á Austurlandi

Bleiki mánuðurinn var settur með trukki hjá Fjarðaáli í gær, sunnudaginn 9. október. Þá tóku um 60 manns, starfsfólk álversins ásamt mökum, börnum og öðrum fylgifiskum þátt í bleiku boðhlaupi inn Reyðarfjörðinn til styrktar krabbameinsfélögum á Austurlandi. Með þátttöku sinni söfnuðu starfsmenn álversins 350.000 króna framlagi frá Samfélagssjóði Alcoa, sem renna mun óskipt til krabbameinsfélaganna.

Ræst var frá tveimur stöðum í einu kl. 10:00 um morguninn, annars vegar frá Vattarnesi sunnan mynnis Reyðarfjarðar og hins vegar frá Litlu-Breiðuvík norðan mynnis og var hlaupið til Reyðarfjarðar, alls um 65 km vegalengd. Þátttakendur fengu að sjálfsögðu bleikan bol til að hlaupa í. Að loknu hlaupi var haldin pizzuveisla í Sómasetrinu, húsi starfsmannafélags Fjarðaáls.
 
Einn af yngstu þátttakendum hlaupsins var Embla Ingólfsdóttir, sem er aðeins þriggja ára gömul. Hún beitti móður sinni fyrir vagninn sinn en snaraðist frá borði skömmu áður en komið var að endamarki og hljóp síðustu 100 metrana. Maður en nú bara þriggja ára!
 
Elsti þátttakandinn var hins vegar Valsteinn Þórir Björnsson sem fagnaði m.a. sjötugsafmæli sínu í sumar. Valsteinn er ekki óvanur hreyfingu því hann fer daglega í sund auk þess sem hann gengur mikið, hjólar talsvert og fer reglulega í ræktina sér til enn frekari heilsubótar.
 
Um Samfélagssjóð Alcoa
Samfélagssjóður Alcoa hefur undanfarin ár veitt um þremur milljónum króna á ári til þess að styðja við svokölluð „ACTION“ verkefni á Austurlandi. Þau felast í því að starfsmaður Fjarðaáls fær hugmynd að sjálfboðaverkefni í þágu félagasamtaka eða stofnunar, og mætir þá hópur starfsmanna á ákveðnum degi og vinnur í a.m.k. 4 tíma fyrir samtökin. Upphæðin sem rennur til samtakanna veltur á því hversu margir starfsmenn taka þátt, en yfirleitt mæta einnig fjölskyldur þeirra og aðrir áhugasamir um verkefnin hverju sinni.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hressir hlauparar með flotta kyndla


Glæsilegur hópur bleikra boðhlaupara, en fremst vinstra megin má sjá þær Agnesi H. Gunnarsdóttur og Önnu Björk Hjaltadóttur, starfsmenn Fjarðaáls. Þær veifa „kyndlunum" sem hlaupið var með hvoru megin fjarðarins - bleikir brjóstahaldarar, auðvitað!Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Ekkert dregið af sér


Í forgrunni eru hjónin Valdimar Baldursson og Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Með álverið í bakgrunninum


Kristborg Bóel Steindórsdóttir, einn skipuleggjenda hlaupsins, á hlaupum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Teygt á vöðvunum


Thai chi æfingar eftir hlaupið. Fremst meðal jafningja er Dagbjört Li Bryngeirsdóttir.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Feðginin Elsa Þórisdóttir, starfsmaður í innkaupateymi, og Valsteinn Þórir Bjarnason komin til inn á Reyðarfjörð. Stutt í mark.