Áfram

8. september 2011
Gert ráð fyrir að innlend útgjöld verði um 1200 milljarðar á 40 ára tímabili

Miðað við orkusamninga Fjarðaáls mun fyrirtækið starfa hér á landi í að minnsta kosti 40 ár. Á þeim tíma má gera ráð fyrir að innlend útgjöld Fjarðaáls verði um eitt þúsund og tvö hundruð milljarðar króna, eða fimmtánfalt meiri en innlendi kostnaðurinn við byggingu álversins.

Í Kanada hefur verið gerð ítarleg greining á raunverulegum áhrifum áliðnaðarins þar í landi. Reynslan þaðan sýnir að eitt álver á stærð við Fjarðaál svarar á einum áratug til þess að stofnuð væru 750 smáfyrirtæki. Á 20 ára tímabili jafngildir það stofnun 1600 fyrirtækja.
 
Uppbygging áliðnaðar hér á landi á liðnum áratugum hefur skipt miklu máli fyrir íslenskt samfélag, tekjur þess og tæknilegar framfarir á mörgum sviðum atvinnulífsins. Það er rétt að hafa það í huga á þessum tímum þegar þjóðfélagið allt kallar á aukna verðmætasköpun og ný störf. Þetta er meðal þess sem fram kemur í leiðara forstjóra Fjarðaáls, Tómasar Más Sigurðssonar, í nýútkomnu tölublaði Fjarðaálsfrétta.

Tómas segir Alcoa Fjarðaál hafa lagt umtalsverða vinnu í stuðning við athugunum á hugsanlegri úrvinnslu áls hérlendis. Sú vinna hafi þegar skilað nokkrum mögulegum verkefnum, til að mynda um hugsanlega álkaplaframleiðslu á Seyðisfirði. Einnig séu Samtök álframleiðenda, Samál, að kanna kosti fullvinnslu áls með svonefndri þrýstimótun, þar sem ál er endurhitað og því þrýst í gegnum steypumót til framleiðslu á margskonar íhlutum. Tómas segir ekki sjálfgefið að úrvinnsla áls sé hagstæð hér á landi vegna fjarlægðar frá mikilvægum mörkuðum.
 
Sem dæmi nefnir Tómas öflugan áliðnað Kanadamanna, þar sem minna sé um fullvinnslu áls en vonir stóðu til vegna of lítils heimamarkaðar og fjarlægðar frá mörkuðum í Bandaríkjunum. „Engu að síður hefur reynslan sýnt að ný fyrirtæki í ýmsum greinum spruttu upp í kringum kanadísku álverin. Við sjáum þegar vísi að slíkri uppbyggingu við Fjarðaál,“ segir Tómas.
 
Nefnir Tómas Launafl sem dæmi um vel heppnaðan samruna austfirskra fyrirtækjaí öfluga rekstrareiningu sem nú annist viðhaldsverkefni fyrir álverið. Þar starfa nú um eitt hundrað manns.
 
Tómas nefnir einnig Fjarðaþrif, sem vinnur fyrir álverið, en þar starfa rúmlega 30 manns, og Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, sem sérhæfir sig í framleiðslu vélbúnaðar fyrir álver hér á landi og erlendis. Þar starfa um þrjú hundruð manns. „Verkfræðistofur, sem hafa unnið fyrir áliðnaðinn, hafa aflað sér mikillar þekkingar til að takast á við stöðugt viðameiri verkefni í stóriðjuframkvæmdum. Íslenskir verkfræðingar hafa auk þess unniðvið tugi álvera í öðrum löndum, svo sem í Noregi, Argentínu, Óman, Katar og víðar,“ segir Tómas meðal annars í leiðara Fjarðaálsfrétta.


Fjarðaálsfréttir


Hægt er að skoða Fjarðaálsfréttir síðustu ára á sérstakri vefsíðu og hlaða niður sem pdf-skjal ef vill.
skoða síðu