Áfram

7. september 2011
Breiðdalssetur: Gamla kaupfélagið á Breiðdalsvík öðlast nýtt líf

Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa hafa veitt Breiðdalssetri á Breiðdalsvík tveggja milljóna króna styrk til frekari uppbyggingar safnsins.

Féð nýtist m.a. til að standa straum af kostnaði við skráningu og flokkun safnmuna sem borist hafa setrinu og koma þeim í varðveislu. Það hefur einnig verið notað til að koma upp sýningum um Dr. Stefán Einarsson og Bretann Dr. G.P.L. Walker, sem voru frumkvöðlar á sviði málvísinda annars vegar og jarðfræði hins vegar, en þessi vísindi eru meðal þeirra þriggja meginstoða sem Breiðdalssetur byggir á.
 
Breiðdalssetur og Breiðdalsvík
Breiðdalssetur er umgjörð um starfsemi sem þróast hefur í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík. Húsið var reist árið 1906 og er hið elsta í þorpinu. Það hefur verið í endurbyggingu síðastliðin ár en var opnað formlega árið 2008. Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa ákváðu 2010 að styrkja setrið með fjárframlögum tvö ár í röð, alls um rúmlega fjórar milljónir króna. Að sögn Páls Baldurssonar sveitarstjóra Breiðdalshrepps hefur setrið átt þátt í að laða fleiri ferðamenn en áður til bæjarsins og núna standi til dæmis yfir þar fundur erlendra vísindamanna sem leiti svara við  spurningunni um uppruna vatns á jörðinni. Hann segir að eftir mikla fækkun íbúa á liðnum áratug, hafi mönnum tekist að halda sjó síðustu ár. Fleiri ferðamenn sjáist á ferli í bænum en áður og útgerð á staðnum sótt í sig veðrið á ný.  
 
Þrjár meginstoðir
Á Breiðdalssetri er verið að þróa miðstöð menningar, sögu og þekkingar á grundvelli þriggja meginstoða - jarðfræði, málvísinda og sögu hússins, þorpsins og byggðarlagsins.   Stoðirnar tengjast svo innbyrðis þar sem Stefán er fæddur og uppalinn í Breiðdalnum og  gerði þar m.a. fyrstu segulbandsupptökur á þjóðfræðilegu efni sem til eru frá Íslandi.  Walker starfaði mikið að jarðfræðirannsóknum á svæðinu og eyddi meira eða minna tíu sumrum á Austfjörðum, kortlagði t.d. Breiðdalseldstöðina og kom með jarðfræðinema á svæðið til að vinna rannsóknarvinnu. Byggðasaga svæðisins tengist Breiðdalssetri svo beint þar sem heimili þess er gamla kaupfélagshúsið, elsta húsið í þorpinu, sem flestir íbúar tengjast á einn eða annan hátt.
 
Samstarf við grunnskóla og háskóla
Hjá Breiðdalssetri er nú verið að koma upp frekari aðstöðu til að taka á móti innlendum og erlendum nemendum í greinum sem tengjast starfseminni. Nefna má að Þorvaldur Þórðarson, prófessor við Háskólann í Edinborg, hefur undanfarin ár komið með masters- og doktorsnema í jarðfræði til að rannsaka svæði í Breiðdalnum og næsta nágrenni hans og hafa hóparnir haft vinnuaðstöðu á Breiðdalssetri. Einnig er ætlunin að koma upp aðstöðu til að taka á móti grunnskóla- og menntaskólanemum í því skyni að stuðla að frekari jarðfræðiáhuga með kennslu og beinum tengingum við þá jarðfræði sem blasir við í Breiðdalnum.

 
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Í gamla daga ...


Myndin var tekin skömmu eftir að húsið var byggt.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


... og núna


Húsið hefur verið gert upp á einstaklega smekklegan hátt og er bæjarprýði í Breiðdalsvík.