Áfram

16. ágúst 2011
Georg Ögmundsson er Austfjarðatröllið 2011

Hin árlega aflraunakeppni um Austfjarðatröllið fór fram dagana  11.–13. ágúst á nokkrum stöðum á Austurlandi.  Keppni var hörð og börðust þeir Georg Ögmundsson og Ari Gunnarsson um sigurinn. Úrslit réðust ekki fyrr en í lokagreininni, en hana sigraði Georg og keppnina samanlagt.  Þetta er í annað sinn sem Georg sigrar í Austfjarðatröllinu en hann stóð einnig uppi sem sigurvegari árið 2007. 

Keppnin var nú haldin í ellefta skipti og hefur öðlast sess sem ein þeirra stærri sinnar tegundar hér á landi. Keppt er í tólf greinum á fjórum dögum og í ár spannaði keppnin einstaklega stórt landsvæði, eða allt frá Þórshöfn til Hafnar í Hornafirði. Sú staðreynd að ál er ein helsta útflutningsvara þessa landsfjórðungs endurspeglaðist í keppnisgreinum, en meðal annars var keppt í álkubbahleðslu við Stríðsárasafnið og álkubbalyftu við gamla Sómastaðahúsið fyrir ofan álverið í Reyðarfirði.
 
Georg Ögmundsson er ekki óvanur því að umgangast ál en hann vinnur sem öryggisfulltrúi í kerskála hjá Fjarðaáli. Hann tók fyrst þátt í keppninni um Austfjarðatröllið árið 2006, vann titilinn árið 2007, lenti í öðru sæti í fyrra og landaði sigri í ár. Í sumar tók hann einnig þátt í Vestfjarðavíkingnum, keppninni um sterkasta mann á Íslandi sem haldin var í Grindavík og aflraunakeppni í Milwaukee í Bandaríkjunum.
 
„Við skulum segja að mér hafi gengið þolanlega í sumar,“ segir Georg, „en það hefur oft verið mjótt á munum. Sumarið hjá mér hefur þó meira og minna snúist um að vinna Austfjarðatröllið, þar sem ég var á heimavelli. Það stóð aldrei neitt annað til en sigur, en ég lagði meira af sjálfum mér í þessa keppni en allar hinar keppnirnar. Hérna þekkja áhorfendur mig og krakkarnir koma til þess að sjá pabba Lindu og Benna keppa. Það kemur ekki annað til en að standa sig undir slíkum kringumstæðum.“ 
 
Alcoa Fjarðaál hefur verið meðal stuðningsaðila Austfjarðatröllsins undanfarin ár og bauð keppendum meðal annars tvisvar út að borða í glæsilegu mötuneyti álversins sem meðan á keppni stóð. Fyrirtækið hefur einnig stutt Georg í keppnum hans í sumar. „Þessi stuðningur frá fyrirtækinu er ómetanlegur og hefur gert mér kleift að taka þátt í þessum mótum, sem vonandi skilar sér sem jákvæð ímynd fyrir fyrirtækið út á við,“ segir Georg.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Álinu lyft upp fyrir álverið


Öryggisfulltrúinn Georg Ögmundsson virðist hérna lyfta álkubbinum upp fyrir álver Fjarðaáls sem sést í bakgrunni.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Álkubbahleðsla


Á Breiðdalsvík var keppt í álkubbahleðslu og hér sést Georg hlaupa með 100 kg álkubb í hleðsluna.