Áfram

23. júní 2011
Metaðsókn í kvennakaffi hjá Fjarðaáli

Aldrei hafa fleiri konur komið í heimsókn til Alcoa Fjarðaáls og á nýliðnum kvenréttindadegi, þann 19. júní. Þá var konum á Austurlandi boðið til kaffisamsætis í mötuneyti fyrirtækisins. Þetta er fjórða árið í röð sem álverið býður konum í kaffi á kvenréttindadaginn og mættu rúmlega tvö hundruð konur, þáðu veitingar og hlýddu á tónlist og ávörp nokkurra starfsmanna Fjarðaáls.

Ef marka má aðsóknina virðist sem Alcoa Fjarðaál hafi skapað skemmtilega hefð í tengslum við kvenréttindadaginn, þar sem kjörgengis og kosningaréttar íslenskra kvenna er minnst hér á landi.
 
Jóhanna Seljan og Andri Bergmann fluttu ljúfa tóna og ávörp fluttu þau Freyja Yeatman Ómarsdóttir, framleiðslustarfsmaður í steypuskála, María Kristmundsdóttir, tölvunarfræðingur í upplýsinga- og tækniteymi fyrirtækisins og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi.
 
Freyja sagði frá flóknum uppruna sínum en faðir hennar er íslenskur og móðir hennar frá Nýja Sjálandi. Hún og systir hennar bjuggu lengst af í Ástralíu með móður sinni. Einnig greindi hún frá ævintýraferð sem framundan er, en hún er á leið til Kína sem fulltrúi Alcoa í vísindaleiðangri á vegum umhverfissamtakanna Earthwatch.
 
Í ræðu sinni talaði María Ósk um þá lífsreynslu að verða foreldri, sem hún sagði stærsta verkefni lífs síns hingað til. María Ósk velti einnig upp þeirri spurningu af hverju jafnréttismál kvenna væru ekki komin lengra á veg  og hvatti hún konur til dáða í baráttu sinni fyrir réttindum sínum, dætra sinna og komandi kynslóða.
 
Tómas Már líkti góðu fyrirtæki við heimili sem hangir saman á öflugum konum. Fjórðungur starfsmanna Fjarðaáls eru konur, en það er hærra hlutfall en í nokkru öðru álveri í eigu Alcoa, sem er með starfsemi í öllum heimsálfum. Hvatti Tómas ungar konur til þess að afla sér menntunar og ganga til liðs við hóp starfsmanna Fjarðaáls.
 
Þess má geta að lokum að árið 2008 hlaut Fjarðaál Jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Mæðgur til fyrirmyndar


María Ósk Kristmundsdóttir (t.h.) flutti ávarp og hvatti konur til að berjast fyrir réttindum sínum, dætra sinna og annarra kvenna. Móðir hennar, sr. Jóhanna Sigmarsdóttir, sóknarprestur á Egilsstöðum (t.v.) mætti í boðið.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Í góðum félagsskap


Frá vinstri: Helga Dröfn Ragnarsdóttir, Jitka Hamrova og Sveinbjörg Karlsdóttir. Þær voru allar á vakt þennan dag en tóku sér hlé til að fagna deginum með hinum konunum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Allt í bleiku


Borð voru fagurlega skreytt með bleikum blómum og gestir fengu bleikan kokkteil (að sjálfsögðu óáfengan). Hér er ung blómarós, Hjördís Helga Seljan, í boðinu. Systir hennar, Jóhanna Seljan, starfar í mannauðsteymi Fjarðaáls, en hún söng fyrir gesti í boðinu.