Áfram

28. júní 2011
Obama Bandaríkjaforseti skoðar hátækniframleiðslu Alcoa í Davenport

Í gær heimsótti Barack Obama, forseti Bandaríkjanna verksmiðju Alcoa í Davenport, Iowa þar sem hann kynnti sér hátækniframleiðslu fyrirtækisins. Á meðan á heimsókninni stóð tilkynnti hann að Alcoa hafi gengið til liðs við forsetann í samstarfi um hátækniframleiðslu sem kallast „Advanced Manufacturing Partnership.”

Í Davenport er þungamiðja framleiðslu Alcoa fyrir flugiðnaðinn, sem nemur um 3 milljörðum bandaríkjadala á ári, eða 345 milljörðum íslenskra króna. Verksmiðjan er sú stærsta sinnar tegundar á heimsvísu og framleiðir hátæknivörur fyrir flugvélar, meðal annars A380 frá Airbus, sem er stærsta farþegaflugvél í heimi, og Boeing 747-8 og 777.
 
„Alcoa sýnir okkur framtíðina sem við getum byggt upp hérna í austurhluta Iowa og víðs vegar um Bandaríkin,” sagði Obama forseti í ávarpi sínu til starfsmanna verksmiðjunnar. „Hjá fyrirtækjum eins og Alcoa er nýsköpun lífsstíll … sá andi er kjarninn í sögu bandarísku þjóðarinnar.”
 
Obama fór í skoðunarferð um verksmiðjuna ásamt forstjóra og stjórnarformanni Alcoa, Klaus Kleinfeld, og forstjóra verksmiðjunnar, Malcolm Murphy. Hann hitti starfsmennina og kynnti sér hvernig framleiðsluvörur verksmiðjunnar gera farartæki á láði, legi og í lofti léttari, sterkari og öruggari.
 
„Alcoa hefur verið í  hjarta  flugiðnaðarins allt frá upphafi,” sagði Kleinfeld. „Ekkert getur flogið án áls. Heimsóknin í dag er viðurkenning á því samstarfi og lífskrafti sem skipar Alcoa í forystu nýsköpunar og hátækniiðnaðar bæði innan og utan Bandaríkjanna.”
 
Eftir skoðunarferðina um verksmiðjuna ávarpaði forsetinn um 400 starfsmenn verksmiðjunnar og fólk úr nærsamfélaginu, og kynnti þá meðal annars hið nýtilkomna samstarf, Advanced Manufacturing Partnership (AMP), sem er landsátak í Bandaríkjunum og miðar að samvinnu iðnaðar, háskóla og stjórnvalda til þess að fjárfesta í nýrri tækni sem skapar þekkingarstörf í iðnaði og eykur samkeppnishæfni bandarískra fyrirtækja. Obama tilkynnti að Alcoa hafi gengið til liðs við átakið en því var hleypt af stokkunum í Pittsburgh í síðustu viku.
 
„Tilgangurinn með átakinu er að skapa nú þegar ný störf og tryggja að Bandaríkin séu í fararbroddi í framleiðslu um ókomin ár,” sagði forsetinn. „Hjá Alcoa er til slagorð: Enginn er fullkominn, en teymi getur verið það. Sem teymi geta Bandaríkin náð fullkomnun, en þá verðum við að byrja að vinna saman sem eitt teymi.”
 
Hjá verksmiðjunni í Davenport vinna 2.200 manns og yfir fjórðungur tekna fyrirtækisins kemur frá útflutningi. Verksmiðjan stendur við Mississippi ána, og framleiðir fyrir flug-, hergagna-, bifreiða- og byggingariðnaðinn. Engin önnur verksmiðja getur framleitt flugvélavængi í heilu lagi, sem gerir þá léttari og sterkari, en verksmiðjan framleiðir vængi fyrir flestar vélar frá Airbus, Boeing, Bombardier og Embraer.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, ávarpaði starfsfólkið í Davenport.