Áfram

16. júní 2011
Iðandi djass á Austurlandi síðustu helgina í júní

Djasshátíð Egilsstaða verður haldin í 24. sinn dagana 23.-26. júní næstkomandi. Boðið verður upp á lifandi tónlist á þremur stöðum á Austurlandi. Alcoa Fjarðaál er meðal helstu styrktaraðila hátíðarinnar.

„Hér er svo fallegt að hér ætti að vera djass,“ sagði Steini Steingríms úr KK sextett við Árna Ísleifs sumarið 1987 á Egilsstöðum.  Ári seinna setti Jón Múli Árnason fyrstu djasshátíð landsins og síðan hafa margir heimsfrægir erlendir listamenn komið fram á árlegri hátíð á Austurlandi, t.a.m. Larry Carlton, Finn Ziegler, James Carter, Svend Asmussen og Beady Belle auk helstu djassleikara á Íslandi.
 
Djasshátíðin fer fram á þremur stöðum á Austurlandi, á Egilsstöðum, í Neskaupstað og á Seyðisfirði.  Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt að vanda og boðið verður upp á klassískan gítarleik, rokk, blús og að sjálfsögðu djass.  Í tilefni dags gítarsins verður því hljóðfæri gert hátt undir höfði og m.a. verður gítarsýning og námskeið í gítarleik hjá Birni Thor, Sigurgeiri Sigmunds og Svani Vilbergsyni. Gítardagurinn er haldinn í samstarfi við tónlistarklúbbinn BRJÁN (Blús-, rokk og jassklúbbinn á Nesi).
 
Þeir listamenn sem prýða dagskrá hátíðarinnar í ár eru til að mynda Tríó Sunnu Gunnlaugs, Gary Moore Tribute,  Dúndurfréttir, Ragnheiður Gröndal og Ylfingarnir, Jón Páll Árnason, Svanur Vilbergsson, Björn Thoroddsen, Garðar Harðar, Hafþór Valur, Guðmundur Höskuldsson, Einar Bragi Bragason og margir fleiri. 
 
Skoða má dagskrána í heild á síðu hátíðarinnar.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Metnaðarfull dagskrá


Gestir djasshátíðarinnar hafa úr nógu að velja þá daga sem hún stendur yfir. Smellið á myndina til að skoða dagskrána eða farið á síðu hátíðarinnar til að lesa meira.
fara á síðu djasshátíðarinnar