Áfram

21. júní 2011
Tveggja mánaða umhverfisátaki formlega lokið með gróðursetningu í Reyðarfirði

Samfélagssjóður Alcoa lauk formlega tveggja mánaða sjálfboðavinnuátakinu „Green Works” með því að gróðursetja 125 tré í Reyðarfirði í morgun og afhenda Vinum Vatnajökuls styrk að upphæð um 80 milljónir króna við hátíðlega athöfn í Snæfellsstofu síðdegis í dag.

Einnig gaf sjóðurinn 23 milljónir króna til samtakanna American Forests sem í samvinnu við Alcoa standa að „Global ReLeaf” verkefninu en það felst í gróðursetningu trjáa í samfélögum víða um heim þar sem Alcoa er með starfsemi. Samfélagssjóður Alcoa hefur samtals gefið 92 milljónir til samtakanna. Samtökin munu aðstoða fyrirtækið með átak sem nefnist „Tíu milljón tré” næstu þrjú árin.
 
„Alcoa vinnur í anda sjálfbærrar þróunar, sem felur meðal annars í sér að hugsa vel um skógana okkar,” sagði Paula Davis, forstjóri Samfélagssjóðs Alcoa, sem kom til Íslands til þess að afhenda styrkinn til Vina Vatnajökuls. „Með því að gróðursetja tíu milljón tré er hægt að binda í jörðu meira en 250 þúsund tonn af koltvísýringi á ári og þannig auka umtalsvert lífsgæði fólks um allan heim.”
 
Á þessu ári mun Global ReLeaf veita minni styrki til 22 viðurkenndra félaga og umhverfissamtaka sem vinna með starfsmönnum Alcoa víðs vegar um heiminn til þess að gróðursetja tré í heimabyggð þeirra. Eingöngu verður notast við náttúrulegar trjátegundir í hverju landi til þess að vernda og viðhalda vistfræðilegu umhverfi. Styrkirnir leiða til gróðursetningar um 225.000 trjáa.
 
Einn þessara styrkja rennur til Skógræktarfélags Íslands sem hlýtur tæplega 3 milljónir króna, eða 25.000 bandaríkjadali, í styrk til þriggja verkefna á vegum félagsins í ár.
 
„Alcoa skilur mikilvægi skóga til þess að viðhalda heilsu jarðarinnar og velferð allra íbúa hennar,” sagði Scott Steen, forstjóri American Forests. „Við erum þakklát Alcoa fyrir að leita til okkar um samstarf til þess að vernda og styrkja þessi lífsnauðsynlegu vistkerfi.”
 
Skógræktarfélag Reyðarfjarðar aðstoðaði íslenska og erlenda starfsmenn Alcoa við að gróðursetja 125 tré í grennd við álver Fjarðaáls í Reyðarfirði í dag. Gróðursetningin markaði formlega lok „Green Works” átaksins, sem fólst í því að starfsmenn Alcoa víða um heim tóku þátt í gróðursetningu trjáa sem hluta af Tíu milljón trjáa verkefninu. Alcoa hyggst standa fyrir gróðursetningu 10 milljón trjáa fram að árinu 2020, en þau geta á ævitíma sínum bundið 250.000 tonn af koltvísýringi á ári.
 
Þess má geta að Fjarðaál hefur í samvinnu við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar gróðursett um 1.000 tré á hverju ári frá árinu 2003. Laugardaginn 11. júní voru 1.000 tré gróðursett á Reyðarfirði, en þá er tala trjánna komin í 8.500. Einnig hefur Fjarðaál staðið fyrir öðrum skógræktarverkefnum í samvinnu við önnur félög og starfsmenn fyrirtækisins en samtals hafa tæp 11.000 tré verið gróðursett hér á landi, og þau telja að sjálfsögðu upp í Tíu milljón trjáa heimsverkefnið.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hópurinn eftir gróðursetninguna (frá vinstri, en allir eru starfsmenn Alcoa nema annað sé tekið fram): Geir Sigurpáll Hlöðversson, Paula Davis, Marcos Ramos, Guðmundur Bjarnason, Erna Indriðadóttir, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar, Ronny Vatland, Ásmundur Ásmundsson, Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar, Jasper van Zon, Magnús Þór Ásmundsson, Anna Heiða Pálsdóttir, Robert Bear, Smári Kristinsson, Tómas Már Sigurðsson, Janne Sigurðsson, Kristinn Harðarson og Páll Freysteinsson.