Áfram

10. júní 2011
Þjóðfélag án þröskulda með aðstoð starfsmanna Alcoa

Laugardaginn 4. júní tóku tíu starfsmenn Fjarðaáls, ásamt fjölskyldum sínum og konum úr Kvenfélagi Eiðaþinghár, þátt í sjálfb  oðaverkefni við gamla barnaskólann á Eiðum. Helsta markmið þeirra var að gera barnaskólann aðgengilegan fyrir fatlaða,  en húsnæðið var einnig málað og umhverfið snyrt.

Kvenfélag Eiðaþinghár hefur afnot af húsnæði gamla barnaskólans á Eiðum, sér um þrif og viðhald og nýtir innkomuna til góðgerðarstarfa fyrir samfélagið á Fljótsdalshéraði. Engin kennsla fer lengur fram í skólanum, þar sem starfsemin var fyrir nokkru flutt til Egilsstaða. Á sumrin er ýmiss konar starfsemi í húsnæði gamla barnaskólans en þar eru meðal annars reknar tónlistarsumarbúðir. Í næstu viku hefjast þar sumarbúðir fyrir fatlað fólk og kvenfélagskonur voru í vandræðum vegna þess að tröppur eru utan á húsinu og fólk bundið hjólastólum komst  ekki inn í það.
 
Karin Axelsdóttir, starfsmaður í skautsmiðju Alcoa Fjarðaáls, er félagi í Kvenfélagi Eiðaþinghár, og henni datt í hug að leita til samstarfsmanna sinna eftir aðstoð við að gera staðinn hjólastólafæran.  Starfsmenn Alcoa víða um heim geta stungið upp á verkefni í þágu samfélagsins og fengið aðra starfsmenn í lið með sér, en ef verkefnið er samþykkt greiðir samfélagssjóður Alcoa vissa upphæð til viðkomandi félagasamtaka – 1.500 bandaríkjadali ef fimm til níu starfsmenn taka þátt  og 3.000 dali ef þeir eru tíu eða fleiri.
 
Þar sem tíu starfsmenn tóku þátt í verkefninu á Eiðum, fær Kvenfélag Eiðaþinghár um 340.000 krónur frá samfélagssjóði Alcoa til að standa straum af kostnaði vegna hráefnis, þ.e. timburs, málningar, o.fl.
 
Karin er himinlifandi yfir góðvilja samstarfsmanna sinna, sem glaðir gáfu þennan laugardagseftirmiðdag í þágu góðs málefnis.
„Þetta tókst mjög vel, veðrið var gott og mikill hugur í mönnum að klára verkefnið,” segir hún. „Ég er svo stolt yfir því að vinna með þessu góða fólki. Gunnþóra, formaður kvenfélagsins, sagði við mig að það væri svo merkilegt að allir þessir karlmenn hafi verið tilbúnir að koma og vinna sjálfboðavinnu. Hún er svo vön að konurnar í kvenfélaginu geri það. En allir þessir karlmenn að vinna fyrir kvenfélagið!  Svo komu líka frábærar konur úr starfsmannahópnum, sem unnu mikið og gott verk.”
 
Eins og myndirnar sýna, smíðuðu sjálfboðaliðarnir rennu úr timbri sem gerir fólki í hjólastólum kleift að komast inn í sumarbúðirnar. Einnig voru tröppur utanhúss málaðar gular til þess að auka öryggi sjónskertra.
 
Sjálfboðaverkefnið á Eiðum var það þriðja í röðinni á þessu ári, en starfsmenn Alcoa hafa þegar útbúið „skautahöll” í gömlum bragga á Egilsstöðum og gert mótókrossbraut fyrir unglingalandsmót UMFÍ í sumar. Ýmis fleiri verkefni eru á listanum en næsta laugardag, þann 11. júní, munu þeir meðal annars vinna fyrir leikskólana á Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði, planta trjám á Reyðarfirði, taka til á Stöðvarfirði og Egilsstöðum, ásamt fleiri verkefnum í samvinnu við bæjarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Duglegir sjálfboðaliðar


Karin Axelsdóttir fylgist með tveimur samstarfsmönnum smíða rennu fyrir hjólastóla.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hjálpast að


Jafnt konur sem karlar hjálpuðust að við verkið. Þessir sjálfboðaliðar máluðu tröppubrúnir gular til að auka öryggi fólksins í sumarbúðunum.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hópmynd


Að sögn Karinar var svo mikill hugur í fólkinu að það vildi varla hætta þegar verkinu lauk. Hér má sjá dugnaðarforkana að loknu verki.