Áfram

16. júní 2011
Alcoa kynnir byltingarkennda tækninýjung fyrir flugvélaiðnaðinn

Alcoa tilkynnti nýlega að fyrirtækið hafi þróað nýjar tæknilausnir fyrir flugvélaiðnaðinn sem gerir honum kleift að framleiða mun léttari og ódýrari flugvélar fyrir styttri flug. Nýju lausnirnar felast m.a. í notkun valsaðrar og mótaðrar framleiðsluvöru Alcoa í ýmsa flugvélarhluti, til dæmis í bolinn og vængina. 

Þessi nýja tækni veitir m.a. eftirtalda kosti:
 
• léttir heildarþyngd flugvélar sem nemur allt að 10% miðað við flugvélar úr samsettum efnum
• lækkar kostnað við framleiðslu, rekstur og viðhald flugvéla um allt að 30%, og dregur einnig úr áhættu við framleiðsluna
• eykur eldsneytisnýtingu um 12%
• stenst samanburð við flugvélar úr samsettum efnum hvað þægindi farþega varðar, t.d. stærri glugga og hærra rakastig.
 
„Ákvarðanirnar sem voru teknar á síðasta áratugnum um að byggja fyrstu flugvélarnar úr samsettum efnum, ýttu hraustlega við okkur,” segir Mick Wallis, yfirmaður völsunarsviðs Alcoa í Bandaríkjunum. „Satt að segja voru það réttar ákvarðanir á sínum tíma – þegar áliðnaðurinn bauð ekki upp á þróaðar tæknilausnir – en tæknimálin hjá okkur hafa tekið stökkbreytingum á þessum tíma.”
 
„Hafa ber í huga,” segir Wallis, „að kröfurnar sem gerðar eru til flugvéla sem fljúga styttri vegalengdir eru aðrar en gerðar eru til langdrægna véla.” Tæknilausnirnar frá Alcoa gera framleiðendum kleift að byggja flugvélar sem standast allar kröfur um tæringarvarnir, viðhaldstíðni og eldsneytisnýtingu, sem getur aukist um 12% til viðbótar þeirri 15% aukningu sem nýjustu vélargerðirnar veita.
 
Alcoa hefur náð miklum framförum í þróun lithíumblandaðs áls sem minnkar eðlismassa í stærri byggingarhlutum flugvéla um allt að 7% og dregur umtalsvert úr hættu á tæringu. Nýjustu lithíumblöndurnar hafa verið notaðar í stærri álplötur á flugvélar sem nú eru um það bil að koma á markaðinn. Aðrar tækninýjungar í framleiðslu álþynna draga m.a. úr vænghafi véla og spara þannig eldsneyti, auk þess sem loftþrýstingi í farþegarými verður betur stjórnað til aukinna þæginda fyrir flugfarþega.
 
„Þegar við byrjuðum að vinna að þessum nýju lausnum, vildum við tryggja að þær yrðu til hagsbóta í öllum fjórum áföngum í lífi einnar flugvélar,” segir Eric Roegner á álmótunarsviði Alcoa. „Í fyrsta lagi, þegar verið er að byggja vélina, þá lækkar framleiðslukostnaður og áhættan varðandi framleiðsluna minnkar. Í öðru lagi, þegar vélinni er flogið, eykst eldsneytisnýtingin um 12% vegna þess að málmurinn er léttari og vélin straumlínulagaðri, en nýtingin getur aukist um allt að 27% ef teknar eru með í dæmið nýjustu vélarnar sem eru að koma á markaðinn.”
 
Wallis bætir við: „Í þriðja áfanganum, þegar kemur að viðhaldi vélanna, lækkum við kostnaðinn vegna aukinna tæringarvarna. Og síðan, í fjórða og síðasta áfanganum – þegar líftíma flugvélarinnar lýkur – þá kemur sú staðreynd til málanna að álið er óendanlega endurvinnsluhæft, sem setur okkur höfuð og herðar yfir öll önnur efni sem notuð eru í iðnaðinum, það er hægt að breyta því aftur í nytsamlegar vörur, aftur og aftur.”
 
Þess má geta að nýlega stóð Alcoa fyrir markaðsrannsóknum í flugvélaiðnaðinum til þess að sjá hvað neytendur kjósa helst þegar kemur að efnum í flugvélar en niðurstöðurnar voru álinu í hag samanborið við samsett plastefni. Næstum 3 af hverjum 4 í tækni- og hönnunariðnaðinum höfðu jákvæða afstöðu til áls sem helsta byggingarefnis í nýjar flugvélar en 54% kusu frekar samsett efni. Stjórnendur og markaðsfræðingar voru á öðru máli. En þegar úrslitaspurningin var lögð fram – hversu líklegt er að þú myndir mæla með lausnum frá Alcoa ef þær leiddu til 10% léttari véla, minni áhættu, og væru 30% ódýrari í framleiðslu, rekstri og viðhaldi – svöruðu 75% af þátttakendum að þeir myndu kjósa álið.