Áfram

1. apríl 2011
Margir söfnuðu yfirskeggi hjá Fjarðaáli

Karlpeningurinn í Fjarðaáli tók sig saman og stofnaði lið Alcoa Fjarðaáls í Mottumars-átakinu sem snýst um að safna yfirvaraskeggi til styrktar Krabbameinsfélagsinu í baráttunni gegn krabbameinum karla.

Keppnin var mjög spennandi. Lið Alcoa Fjarðaáls var um tíma í öðru sætinu en leikar fóru þannig að lið Arion banka varð í efsta sætinu, lið Byko í öðru sæti og lið Landsvirkjunar í því þriðja.
 
Alcoa Fjarðaál studdi mottulið fyrirtækisins með 450 þúsund króna framlagi en samtals safnaði liðið 560 þúsund krónum. Tæplega 59 milljónir króna söfnuðust í átakinu.
 
„Þetta er búið að ganga ótrúlega vel og margir hafa lagt okkur lið með því að safna yfirskeggi. Menn eru misfríðir með motturnar en láta það samt ekki aftra sér þegar gott málefni er annars vegar. Ég er stoltur af strákunum í álverinu. Ég vil þakka öllum samstarfsfélögum mínum fyrir að taka þátt og styrkja þetta góða málefni,“ segir Óðinn Ólafsson, fyrirliði í viðhaldi í steypuskála Fjarðaáls.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Mottulið Alcoa Fjarðaáls


Samsetta myndin sýnir hluta af mottuliði Fjarðaáls.