Áfram

25. mars 2011
Motocross ökuþór íþróttamaður ársins hjá UÍA

Hjálmar Jónsson akstursíþróttamaður var kjörinn Íþróttamaður ársins 2010 hjá UÍA, Ungmenna og íþróttasambandi Austurlands.  Þetta var tilkynnt nýlega á Eskifirði. 

Hjálmar Jónsson akstursíþróttamaður var kjörinn Íþróttamaður ársins 2010 hjá UÍA, Ungmenna og íþróttasambandi Austurlands. Kjörið var tilkynnt á sambandsþingi UÍA sem var haldið nýlega á Eskifirði.
 
Hjálmar Jónsson, sem er frá Egilsstöðum, keppir í Motocross og stóð sig mjög vel í akstursíþróttinni á síðasta ári. Hjálmar hafnaði í 3. sæti á Íslandsmótinu en hann keppir fyrir aksturíþróttafélagið Start á Egilsstöðum. Hann var meðal annars valinn í landsliðið og keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu Motocross of Nations sem haldið var í Bandaríkjunum síðastliðið haust. Þar stóð hann sig einnig mjög vel og varð í 26. sæti sem er besti árangur Íslendings hingað til.
 
„Þetta er auðvitað mikill heiður að vera kosinn íþróttamaður ársins hjá UÍA. Þetta er mikil viðurkenning bæði fyrir mig og raunar líka fyrir Motocross íþróttina,“ segir Hjálmar.
 
Mikið adrenalínkikk á hjólinu
 
Hann byrjaði í Motocross 15 ára gamall árið 2002. „Þetta er alveg frábært sport. Adrenalínflæðið er í botni þegar maður er að keppa á hjólinu og alltaf mikil spenna. Ég náði mínum besta árangri á síðasta ári enda æfði ég þá mjög vel. Nú er stefnan að halda áfram á sömu braut og gera enn betur á komandi keppnistímabili. Það þýðir ekkert annað en að setja markið hátt," segir Hjálmar.
 
Hann hefur alla tíð keyrt á Honda hjóli en hefur nú ákveðið að skipta um hjólategund og mun keyra  á Suzuki RMZ 450 2011 á komandi keppnistímabili. „Það verður spennandi að skipta um hjól og vonandi mun mér ganga allt í haginn á Suzuki,“ bætir hann við.
 
Hjálmar fékk afhentan glæsilegan farandbikar og eignarbikar frá UÍA. Að venju hlaut hann, sem íþróttamaður UÍA, einnig 100.000 kr. styrk úr Spretti, Afrekssjóði UÍA og Alcoa Fjarðaáls.
 
 
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hjálmar Jónsson


Hjálmar Jónsson með verðlaunabikarinn.