Áfram

15. mars 2011
Samfélagsstyrkir 148 milljónir króna á síðasta ári

Alcoa Fjarðaál og Samfélagssjóður Alcoa veittu tæplega 50  styrki til samfélagsverkefna á síðasta ári að upphæð 148 milljónir króna. 

Hæsta styrkinn, 87 milljónir króna fengu Vinir Vatnajökuls, samtök sem voru stofnuð í því skyni að efla og kynna Vatnajökulsþjóðgarð, bæði á Íslandi og í útlöndum.  Björgunarsveitir á Austurlandi fengu rúmlega 12 milljóna króna styrk til að þjálfa og mennta austfirska björgunarsveitarmenn en auk þess fékk Hjálparstarf kirkjunnar tæplega 6 milljóna króna styrk, til aðstoðar þeim sem standa höllum fæti vegna fjárhagserfiðleika. 
 
Fjölmargir aðrir fengu styrki, m.a. íþróttafélög á Austurlandi, menningarmiðstöðin á Eskifirði, Rauði krossinn og verkefnið Þjóðleikur sem virkjar skólanemendur um allt Austurland  í leiklistarstarfi. Meðal annarra menningarverkefna má nefna Jasshátíð Austurlands og Vídeólistahátíðina Hreindýraland.is.  Smærri styrkir voru einnig veittir. Krabbameinsfélag Austurlands fékk til að mynda 250 þúsund króna styrk til að veita músíkþerapíu og Skógræktarfélag Austur-Skaftfellinga fékk 100 þúsund króna styrk til söfnunar krydd- og tejurta.
 
Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum veitti rúmlega 9 milljónir króna í styrki vegna sjálfboðaliðastarfs starfsmanna Fjarðaáls í fyrra.  Meðal þeirra verkefna sem sjálfboðaliðar  unnu að, var bygging tveggja útiskólastofa við skólana á Reyðarfirði og Egilsstöðum  bygging palls við sjúkrahúsið í Neskaupstað og einnig var útbúið skautasvell á Egilsstöðum.  
 
Alcoa og Samfélagssjóður Alcoa hafa veitt samtals um 520 milljónir króna í styrki á Íslandi frá árinu 2003.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Sjálfboðaliðar á fullu


Starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa verið mjög duglegir að taka þátt í sjálfboðaliðaverkefnum víðs vegar um Austurland. Hér má sjá nokkur börn starfsmanna hjálpa foreldrum sínum að byggja útiskólastofu við grunnskólann á Reyðarfirði.