Áfram

9. febrúar 2011
Námsmenn fá stjörnusjónauka að gjöf

Allir grunn- og framhaldsskólar á Austurlandi fengu í gær 8. febrúar afhenta stjörnusjónauka að gjöf frá Stjarnvísindafélagi Íslands, Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og landsnefnd um ár stjörnufræðinnar 2009. Alcoa Fjarðaál styrkti verkefnið um 300 þúsund krónur en það miðar að því að allir grunn- og framhaldsskólar á Íslandi fái stjörnusjónauka að gjöf.

Tilgangurinn með verkefninu er að efla áhuga íslenskra nemenda á raunvísindum og gera þeim kleift að sjá undur alheimsins með eigin augum. Sjónaukinn er nefndur Galíleósjónaukinn eftir ítalska vísindamanninum Galíleó Galílei sem hratt af stað vísindabyltingu þegar hann beindi sínum heimasmíðaða sjónauka til himins.
 
Hvatinn að því að sjónaukarnir eru gefnir skólum er Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009. Í tilefni þess tók alþjóðlegur hópur stjarnvísindamanna, stjörnuáhugamanna og raunvísindakennara sig til og útbjó sérstakan stjörnusjónauka með það í huga að gera undur alheimsins aðgengileg fyrir sem flesta.
 
„Þetta er eitt stærsta vísindamiðlunarverkefni sem ráðist hefur verið í á Íslandi,“ segir Sævar Helgi Bragason, umsjónarmaður verkefnisins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. „Markmiðið er að gefa öllum íslenskum skólabörnum færi á að sjá það sem Galíleó Galílei sá fyrir 400 árum og meira til. Með því getum við vonandi eflt áhuga íslenskra skólabarna á raunvísindum.“
 
Galíleósjónaukinn er eins og gefur að skilja mun betri og fullkomnari en sá sem Galíleó smíðaði sjálfur fyrir fjórum öldum. Hann er 50mm linsusjónauki sem gefur ýmist 25-falda eða 50-falda stækkun. Sjónsvið hans er nokkuð vítt sem gerir hann þægilegan og einfaldan í notkun. Með sjónaukanum geta íslensk skólabörn m.a. skoðað fæðingarstaði stjarna, stjörnuþyrpingar og vetrarbraut í milljóna ljósára fjarlægð.
 
Galíleósjónaukinn fer ósamsettur í skólana. Hægt er að taka hann í sundur og setja saman aftur. Sjónaukinn er þess vegna framúrskarandi kennslutæki sem hægt er að nýta til kennslu í stærðfræði, eðlisfræði, sögu, heimspeki og stjörnufræði. Með sjónaukanum fylgir heimildarmynd með íslenskum texta um 400 ára sögu stjörnusjónaukans.
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Áhugasamir nemendur


Börnin í grunnskólanum á Reyðarfirði voru spennt að fá að kíkja í sjónaukann.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Vísindamaður framtíðarinnar?


Þessi ungi nemandi við grunnskólann á Reyðarfirði einbeitti sér af öllum krafti að því að sjá undur himinhvolfsins.