Áfram

14. janúar 2011
Norðursprotar veita styrki til nýsköpunar

Norðursprotar veittu nýlega 10 nýsköpunarverkefnum styrki við hátíðlega athöfn í Háskólanum á Akureyri, en verkefnið var styrkt af Samfélagssjóði Alcoa.  Samanlagt hafa 29 verkefni fengið styrk  í gegnum Norðursprota. 

Norðursprotar er heitið á tímabundnu verkefni sem hefur verið unnið í samstarfi Háskólans á Akureyri, Impru, Nýsköpunarmiðstöðvar og Alcoa Fjarðaáls með það að markmiði að styðja við hugmyndir til nýsköpunar á Norðausturlandi. Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum veitti tæplega 6 milljóna króna styrk til  verkefnisins.
 
„Það er sannarlega von okkar að þessi styrkur eigi eftir að nýtast vel og vera nýsköpunarverkefnum til framdráttar. Verkefnið var sett á laggirnar á vormánuðum 2009, og nú þegar hafa 29 verkefni hlotið styrk. Margir styrkirnir hafa þegar skapað aðstandendum þeirra störf,“ segir Berglind Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
 
Hún segir að markmið Norðursprota sé að styðja við nýsköpunarhugmyndir einstaklinga á Norðausturlandi, þ.e. á svæðinu frá Djúpavogi til og með Eyjafirði. „Tilgangur verkefnisins er að hvetja til nýsköpunar í atvinnulífi á Norðausturlandi og styðja við einstaklinga í atvinnuleit sem búa yfir viðskiptahugmyndum og aðstoða þá við að hrinda þeim í framkvæmd,“ segir Berglind.
Hún segir jafnframt að með þessu verkefni sé einnig verið að stuðla að faglegri vinnslu viðskiptahugmynda með arðsemi og kröfur markaðarins að leiðarljósi og að hvetja atvinnuleitendur til að skapa sér ný atvinnutækifæri.
 
Við síðustu afgreiðslu verkefnisins bárust 36 umsóknir sem telst mjög mikið og sérstaklega ef horft er til þess að styrkurinn nær ekki til alls landsins.
 
Þeir sem hlutu styrkina að þessu sinni eru:
 
Anna Sóley Herbertsdóttir - Hönnun og slípun á Nuddsteinum
 
Arngrímur Viðar Ásgeirsson - Sjálfbærar veiðar að hausti
 
Ásgeir Ívarsson – Grænn efnaiðnaður
 
Björn Gunnarsson – Sjúkraflug Íslands, ICEMED
 
Guðný Vésteinsdóttir – Birkisafi - aukning og geymsluþol
 
Helga Ragnheiður Jósepsdóttir – Kjötkrókar
 
Hildur Einarsdóttir – Siglingar á Hálslóni
 
Jón Þór Benediktsson – Skíðarútan á Akureyri
 
Rán ehf. – Plastbátaverksmiðja
 
Sigurbjörn Höskuldsson - Snjóþota