Áfram

17. janúar 2011
Sjálfboðaliðar bjuggu til skautahöll á Egilsstöðum

Nítján sjálfboðaliðar frá Alcoa Fjarðaáli og fjölskyldur þeirra unnu hörðum höndum um helgina við að koma upp skautasvelli í gamla „Bragganum“ á Egilsstöðum. Húsnæðið var áður korngeymsla Sláturhússins á Egilsstöðum en mun nú þjóna nýju hlutverki og gefa Austfirðingum tækifæri á að renna sér á skautum við prýðilegar aðstæður.

Alcoa Fjarðaál styrkti verkefnið um alls 460 þúsund krónur en það var hluti af svonefndu Action sjálfboðaverkefni fyrirtækisins. Bæjarstjórn Egilsstaða lánar húsið og lagði til bekki sem munu prýða það.
 
„Það var sannarlega tekið til hendinni. Við hreinsuðum vel til í húsinu, lögðum plastdúk á gólfið, sprautuðum vatni á hann og settum upp bekki sem sveitarfélagið leggur til. Nú bíðum við bara eftir að það verði frost samfellt í nokkra daga og þá verður skautasvellið tilbúið,“ segir Jana Sulikova, starfsmaður Fjarðaáls, en hún hefur verið mikill drifkraftur í verkefninu.
 
Jana segir að sjálfboðastarfið um helgina hafi gengið mjög vel. „Það var frábær mæting  og allir lögðust á eitt við að koma skautasvellinu upp og húsnæðinu í gott horf,“ segir hún.
 
Hópur áhugamanna um skautaíþróttina á Austurlandi mun halda stofnfund Skautafélags Austurlands á fimmtudag. Jana segist finna fyrir miklum áhuga á skautaíþróttinni fyrir austan sem mun væntanlega margfaldast með tilkomu nýja skautasvellsins. 
 
„Ég mun nú stíga á skauta í fyrsta skipti á nýja skautasvellinu og ég held að það verði fleiri í mínum sporum sem láta nú gamlan draum rætast,“ segir Jana, sem er frá Tékklandi en hefur verið búsett á Íslandi undanfarin fjögur ár.
 
Mikið sjálfboðastarf hjá Fjarðaáli
Árið 2010 var svo sannarlega ár sjálfboðaliðanna hjá Fjarðaáli þar sem 304 starfsmenn fyrirtækisins tóku á einhvern hátt þátt í Action-verkefnum sem skipulögð voru á vegum Alcoa eða unnu með félagi sínu og sóttu um svokallaðan Bravó-styrk til félagsins. Þetta þýðir að 63% starfsmanna hafi lagt fram krafta sína á þennan hátt.
 
Á árinu réðust starfsmenn Fjarðaáls, ásamt fjölskyldum sínum,  í tíu verkefni í fimm bæjum á Austurlandi. Síðastliðið sumar settu starfsmenn upp útiskólastofur við grunnskóla á Egilsstöðum og Reyðarfirði, gerðu upp húsnæði Björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði og byggðu einnig útipall við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað svo dæmi séu tekin. Alcoa lagði til alls um fjórar milljónir króna í styrki vegna Action-verkefna á árinu 2010 og mun halda áfram slíku starfi á þessu ári.
Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Hress og kátur hópur


Á myndinni sést stór hluti hópsins en alls tóku þrjátíu manns þátt í samfélagsverkefninu á föstudaginn.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Kornskálinn


Bragginn að innan, eftir að vatni hafði verið sprautað á gólfið. Litríkir veggirnir gera húsnæðið hlýlegt og skemmtilegt.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Kraftmikið par


Janka Sulikova ásamt eiginmanni sínum, Michal Janicek.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Fönn, fönn, fönn


Mikill snjór var á Egilsstöðum þegar ráðist var í verkefnið - en einn aðalkosturinn við skautasvell undir þaki er auðvitað að ekki þarf að skafa eða moka snjó.