Áfram

20. ágúst 2010
Sómastaðir opnaðir með viðhöfn

Framkvæmdum við endurgerð Sómastaða við Reyðarfjörð er nú lokið og var húsið opnað við hátíðlega athöfn þann 17. ágúst. Samfélagssjóður Alcoa  styrkti framkvæmdirnar með 16 milljóna króna framlagi. Sómastaðir eru í næsta nágrenni við álver Fjarðaáls.

Opnun Sómastaða var fagnað við hátíðlega athöfn með móttöku í húsinu þann 17. ágúst og voru gestir afar ánægðir með árangurinn af framkvæmdunum. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður lýsti verkefninu og þakkaði fyrir veglega styrki frá Samfélagssjóði Alcoa og Menningarráði Austurlands og frábært samstarf við Húsafriðunarnefnd, iðnaðarmenn  og fleiri sem unnu frábært starf að Sómastöðum.
 
„Það var mjög vandað til verksins og unnið af mikilli fagmennsku út frá sjónarhóli þjóðminjavörslu. Við framkvæmdirnar var tekið mið af byggingu og sögu hússins. Miklar byggingasögulegar rannsóknir voru gerðar vegna hússins, m.a. nákvæmlega hvernig litir voru í því áður, hvaða byggingarefni var notað, hvernig herbergjaskipan var o.fl. Það var lögð mikil áhersla á að varðveita minjagildi hússins,“ segir Margrét.
 
„Svo virðist sem jökulleir hafi ekki reynst vel í íslensku veðurfari þannig það var fljótlega farið að nota önnur efni en þetta er hluti af sögu þessa húss. Við endurbæturnar var hins vegar valið að nota sementsblöndu til að binda saman grjóthleðslurnar,“ segir Margrét.
 
Sómastaðir eru í vörslu Þjóðminjasafns Íslands og eru hluti af húsasafni þess. Á Sómastöðum verða til sýnis gamlir heimilismunir af austfirskum söfnum og ljósmyndir um sögu hússins en víða má sjá merki um hvernig það hefur breyst í tímans rás.
 
„Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að sjá hvernig húsið hefur breyst í lítinn gullmola í meðförum þeirra sérfræðinga sem komu að endurbyggingu þess,“ segir Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og upplýsingamála Fjarðaáls. Hún segir að allir, sem hlut eiga að máli, geti verið afar stoltir af afrakstrinum. „Húsið er afar fallegt og vandað var til allra verka í framkvæmdunum.“
 Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Fallegt hús sem rúmaði marga


Útvegsbóndinn Hans Jakob Beck byggði steinhúsið að Sómastöðum árið 1875.  Grunnflötur hússins er um 37 fermetrar, undir því er kjallari og nýtanlegt pláss er í risi.  Hans Jakob var tvíkvæntur 23 barna faðir og því má segja að plássið hafi verið vel nýtt.