Áfram

11. desember 2008
Verkefni fyrir innflytjendur hlýtur styrk

Verkefni sem miðar að því að styðja innflytjendur í Þingeyjarsýslum til virkrar þátttöku í samfélagi og atvinnulífi hefur hlotið rúmlega þriggja milljóna króna styrk frá samfélagssjóði Alcoa. Verkefnið er á vegum stéttarfélaga í Þingeyjarsýslu, í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing og ber heitið „Samvinna og ábyrgð í málefnum innflytjenda.“

Verkefni sem miðar að því að styðja innflytjendur í Þingeyjarsýslum til virkrar þátttöku í samfélagi og atvinnulífi hefur hlotið rúmlega þriggja milljóna króna styrk frá samfélagssjóði Alcoa. Verkefnið er á vegum stéttarfélaga í Þingeyjarsýslu, í samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing og ber heitið „Samvinna og ábyrgð í málefnum innflytjenda.“
 
Skrifstofa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur frá því í febrúar 2007 verið miðstöð ýmissar þjónustu fyrir innflytjendur á svæðinu. Skrifstofan hefur meðal annars veitt erlendum starfsmönnum á svæðinu aðstoð við samskipti við opinberar stofnanir, atvinnu- og húsnæðisleit, umsóknir um dvalarleyfi, túlkaþjónustu og ýmislegt fleira. Boðið hefur verið upp á fræðslufundi og námskeið í íslensku og samfélagsfræði í samstarfi við Þekkingarsetur Þingeyinga. Samfélagssjóður Alcoa styrkir verkefnið um 15.000 Bandaríkjadali á þessu ári og sömu upphæð á því næsta.
 
„Það er  ýmsum erfiðleikum háð að fóta sig í nýju samfélagi og skylda okkar að aðstoða nýja íbúa eftir bestu getu. Innflytjendur þurfa að hafa mikil samskipti við opinberar stofnanir og það getur verið nógu erfitt fyrir innfædda Íslendinga sem tala málið og þekkja til í kerfinu. Það er algjört  lykilatriði að innflytjendur geti sótt sér á einn stað þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda. Verkefnið hefur skilað góðum árangri. Fleiri innflytjendur hafa nú áhuga á að setjast hér að til lengri tíma, ekki síst vegna þess að okkur hefur tekist að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu með markvissum hætti. Við erum mjög ánægð með að Samfélagssjóður Alcoa hafi ákveðið að styrkja verkefnið með svo myndarlegum hætti,“ sagði Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar-stéttarfélags.
 
Könnun sem gerð var í byrjun ársbyrjun 2008 leiddi í ljós að um það bil helmingur innflytjenda á svæðinu hefur nýtt sér þjónustuna og ríflega 80% lýstu yfir ánægju með hana. Verkefnið hefur vakið mikla athygli víða um land og hlaut meðal annars styrk frá þróunarsjóði innflytjendamála árið 2007. Sveitarfélagið Norðurþing hefur einnig komið að verkefninu með fjárframlagi.
 
Þann 1. janúar 2008 er áætlað að um 185 útlendingar hafi átt lögheimili í Þingeyjarsýslum, langflestir Pólverjar. Til viðbótar má áætla að um 200 útlendingar hafi komið til starfa á svæðinu síðasta sumar og fram á haust til tímabundinna starfa við ferðaþjónustu og sauðfjárslátrun.
 
Samfélagssjóður Alcoa var stofnaður 1952 og er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Bandaríkjunum. Sjóðurinn styrkir fjölda góðra málefna um allan heim og námu styrkveitingar sjóðsins árið 2007 alls um 28 milljónum Bandaríkjadala. Í fyrra námu styrkveitingar sjóðsins á Íslandi rúmlega 880.000 dölum.