Áfram

23. september 2008
Yfir 100 manns taka þátt í sjálfboðaliðastarfi á Austurlandi

Sjálfboðaliðar úr röðum starfsmanna Alcoa Fjarðaáls störfuðu að samfélagsverkefnum á Austurlandi á laugardaginn undir kjörorðinu „Leggjum hönd á plóg“. Þátttaka starfsmanna í þessum verkefnum er liður í víðtæku samfélagsstarfi sem starfsmenn Alcoa vinna að um allan heim.

Samtals tóku yfir 50 starfsmenn Alcoa Fjarðaáls þátt í fjórum verk-efnum. Fjölmargir utan fyrirtækisins tóku einnig áskorun starfsmanna um að taka þátt í sjálfboðaliðastarfinu og samtals unnu 125 manns að fjölbreyttum sjálfboðaliðastörfum til bóta fyrir samfélagið á Austurlandi um helgina.
 
Í Reyðarfirði settu sjálfboðaliðar upp handrið meðfram Geithúsárgili á hættulegum kafla gönguleiðarinnar yfir Grænafell sem liggur frá Reyðarfirði yfir í Fagradal og lögðu brú yfir læk á leiðinni.
 
Á Héraði voru lagðir göngustígar við sumarbúðir Kirkjumiðstöðvar Austurlands við Eiðavatn. Kirkjumiðstöðin er sjálfseignarstofnun í eigu safnaðanna á Austurlandi og á hverju sumri njóta um tvö hundruð börn dvalar í sumarbúðunum í fögru umhverfi. Framlag Alcoa verður nýtt til að lagfæra leiktæki við sumarbúðirnar.
 
Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupsstað og Slysavarnarhúsið Ósland á Fáskrúðsfirði fengu að njóta krafta sjálfboðaliða sem máluðu og sinntu ýmiss konar viðhaldi á húsum.
 
Um miðjan október verður unnið á Egilsstöðum að fyrsta strand-blakvellinum á Austurlandi og viðhaldi húsnæðis Björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði.
 
Starfsmenn Alcoa um allan heim leggja samfélagsmálum lið með sjálfboðavinnu í október ár hvert. Samfélagssjóður Alcoa styður starfið með fjárframlögum til þeirra verkefna sem um ræðir. Þetta er þriðja árið sem starfsmenn Fjarðaáls vinna að slíkum verkefnum og hefur þátttakan aukist ár frá ári. Í ljósi reynslu síðustu tveggja ára var ákveðið að flýta vinnunni þetta árið um nokkrar vikur til að auka líkur á að starfsmenn fengju að njóta góðs veðurs við sjálfboðaliðastörfin. Sú áætlun stóðst fullkomnlega því veðrið lék við starfsmenn fyrirtækisins og aðra sjálfboðaliða um helgina.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.


Sjálfboðaliðastarf á Austurlandi


Georg Ögmundsson og Unnur Friðþjófsdóttir setja upp handrið við göngustíg í Grænafelli í ReyðarfirðiSmelltu á myndina til þess að stækka hana.


Vaskir sjálfboðaliðar í sumarbúðum við Eiðavatn


Stórir og smáir hjálpuðust að við að stika leið frá sumarbúðunum við Eiðavatn að Eiðum, þannig að ekki þurfi að ganga með börnin með fram þjóðveginum - sem er auðvitað stórhættulegt. Fyllt var upp í djúpar skorur á leiðinni, sums staðar grafið niður, og síðan klipptar trjágreinar.