Áfram

28. maí 2008
Fjarðaál styrkir Kirkju- og menningarmiðstöðina í Fjarðabyggð

Alcoa Fjarðaál verður meginstyrktaraðili Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar í Fjarðabyggð næstu 3 árin. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Davíð Baldursson, stjórnarformaður Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar undirrituðu samning þess efnis í miðstöðinni í dag.

Kirkju- og menningarmiðstöðin í Fjarðabyggð er einn af vaxtarbroddunum í fjölskrúðugu tónlistarlífi á Austurlandi. Miðstöðin er til húsa í kirkjunni á Eskifirði sem hentar einstaklega vel til tónleikahalds. Um 4000 manns sóttu viðburði í miðstöðinni á síðasta ári. Í starfi hennar er áhersla lögð á öflugt grasrótarstarf og að kynna tónlist fyrir almenningi. Nú er unnið að skipulagningu veglegrar vetrardagskrár fyrir næsta vetur en stefnt er að því að bjóða upp 16-17 viðburði á ári hverju, auk viðburða annara aðila.
 
Davíð Baldursson, stjórnarformaður  Kirkju - og menningarmiðstöðvarinnar sagði við undirritun samningsins: “Ég tel að lifandi menning sé ein mikilvægasta undirstaðan fyrir lifandi samfélag. Markmið Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar er að taka þátt í að skapa öflugt menningarlíf á Austurlandi og gera okkur samkeppnishæf á þessu mikilvæga sviði mannlífsins. Það er okkur Austfirðingum mikilvægt að öflugt fyrirtæki á svæðinu skuli ganga fram fyrir skjöldu með jafn afgerandi hætti og styðja hér listir og menningu. Þessi styrkur mun efla okkur til góðra verka.”
 
Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls sagði: “Það eru ríkir hagsmunir Alcoa Fjarðaáls að það sé gott að búa á Austurlandi og það er stefna fyrirtækisins að vera virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er okkur og öllum öðrum sem störfum og búum á svæðinu nauðsynlegt að hér þrífist fjölbreytt og lifandi menning og það er mér mikil ánægja að geta stutt við metnaðarfullt starf Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar á þennan hátt.”
 
Framundan hjá Kirkju- og menningarmiðstöðinni eru meðal annars tónleikar Víkings Heiðars Ólafssonar 3. júní næstkomandi. Þrátt fyrir ungan aldur er Víkingur orðinn einn færasti píanóleikari okkar Íslendinga. Hann stundar  meistaranám við hinn virta Juilliard skóla í New York. Hann hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir list sína, meðal annars Carl Roeder-verðlaunin fyrir píanóleik við Juilliard skólann árið 2006.
 
Föstudaginn 13. júní verða Árnesingakórinn og karlakórinn Stefnir með tónleika undir stjórn Gunnars Ben og 19. júní flytur Jón Ólafsson ásamt þjóðþekktum tónlistarmönnum gömul og ný lög við ljóð Steins Steinarrs.
 
Á fjölbreyttri vetrardagskrá miðstöðvarinnar, sem nú er í mótun, verða meðal annars tónleikar með Pétri Ben, kórar á Austurlandi og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands munu halda sameiginlega tónleika, Baltasar Samper mun halda myndlistasýningu og Jónas Ingimundarson bjóða til ferðalags um heim tónlistarinnar. Systkinin Stradivarius og Steinway munu leiða saman hesta sína á tónleikum Hjörleifs Valssonar  fiðluleikara og  Kára Þormars píanóleikara.  Austfirðingum og gestum verður boðið til aðventutónleika með hljómsveit, kór, barnakór og einsöngvurum þar sem jólalag Austurlands 2008 verður frumflutt. Á tónleikunum “Austfirskt, já takk” munu brottfluttir, austfirskir hljóðfæraleikarar heimsækja átthagana með fjölbreytta dagskrá. Það er því óhætt að segja að það sé margt framundan í starfi Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar í Fjarðabyggð