Áfram

1. mars 2006
Samkomulag Alcoa og ríkisstjórnar Íslands:Hagkvæmni nýs 250.000 tonna álvers á Bakka við Húsavík verði könnuð– Álverið gæti orðið eitt það fyrsta í heiminum sem knúið er að mestu rafmagni framleiddu með jarðvarmaorku

Bandaríska fyrirtækið Alcoa Corp. og ríkisstjórn Íslands hafa undirritað samkomulag um að hefja ítarlega könnun á hagkvæmni þess að reisa nýtt, 250.000 tonna álver á Bakka við Húsavík. Verði af byggingu þess mun álverið nota rafmagn sem að mestu verður framleitt með vistvænni jarðvarmaorku. Verði ákveðið að reisa nýtt álver á Norðurlandi er fyrstu framkvæmda á svæðinu ekki að vænta fyrr en árið 2010.

Samningurinn fylgir í kjölfar þeirrar ákvörðunar Alcoa að velja Bakka við Húsavík fyrir byggingu hugsanlegs álvers eftir samanburðarrannsóknir milli þeirra staða sem komu til greina á Norðurlandi. Aðrir staðir sem einnig voru skoðaðir gaumgæfilega voru Brimnes í Skagafirði og Dysnes í Eyjafirði. Þetta er í fyrsta sinn sem svo umfangsmikil samanburðarrannsókn hefur verið gerð fyrir opnum tjöldum hérlendis í aðdraganda staðarvals fyrir stóriðju.
 
Ráðgjafanefnd um staðarval var skipuð fulltrúum sveitarfélaganna þriggja sem valið stóð um, Invest in Iceland-skrifstofunnar og Alcoa. Nefndin leitaði álits færustu sérfræðinga og lagði jafnframt til grundvallar endanlegu staðarvali mat á efnahags-, samfélags- og umhverfisþáttum.
 
Við ákvörðunina var horft til jarðfræði og vistfræði umræddra svæða, landfræðilegra aðstæðna, hugsanlegra fornleifa, veðurfars, siglingarleiða og hafnaraðstæðna svo og orkuframleiðslu, orkuflutnings og almennra samgangna. Ennfremur var lagt mat á samfélagsleg og efnahagsleg áhrif, svo sem íbúasamsetningu viðkomandi sveitarfélaga, vinnumarkað og áhuga íbúa á hugsanlegum framkvæmdum.
 
Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði á fréttamannafundi í New York fyrr í dag, að staðarvalið væri mikilvægur áfangi í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. 
 
„Það er okkur nauðsynlegt að virkja þá hreinu og endurnýtanlegu orku sem landið býr yfir til þess að styrkja efnahagslíf einstakra landshluta og þjóðarinnar um leið. Álframleiðsla er stöðug og sjálfbær atvinnugrein sem skilar þjóðinni ávinningi til framtíðar. Í því tilliti nægir okkur að horfa til reynslunnar frá SV-horninu. Við byggingu álvers Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði hefur atvinnulíf á Austfjörðum gengið í endurnýjun lífdaga. Við þurfum sambærilega þróun á Norðurlandi,” sagði ráðherra.
 
Bernt Reitan, aðstoðarforstjóri Alcoa Corporation, sagði á fundinum í dag, að forsvarsmenn fyrirtækisins væru stoltir af því að hafa verið fyrsti valkostur íslenskra stjórnvalda þegar kom að því að velja samstarfsaðila við undirbúningsrannsóknir fyrir nýtt, hugsanlegt álver á Norðurlandi.
 
„Það hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um byggingu álvers. En þetta gæti hugsanlega orðið fyrsta álverið í heiminum sem knúið er rafmagni framleiddu með jarðvarmaorku. Það er margt sem þarf að athuga gaumgæfilega áður en ákvörðun verður tekin um byggingu álvers, sérstaklega hvað varðar afhendingu orku til framleiðslunnar og verð á henni. Hér er hins vegar einstakt tækifæri fyrir Alcoa til að treysta böndin við íslensk stjórnvöld og íbúa landsins,” sagði Reitan.
 
Í máli hans kom einnig fram að Ísland væri ákjósanlegt fyrir Alcoa. Viðskiptaumhverfi væri væri opið og gegnsætt, þjóðin treysti Alcoa til þess að vinna í anda sjálfbærrar þróunar, sveitarstjórnir fögnuðu ábyrgri uppbyggingu og að á Íslandi væri vel menntað vinnuafl. „Okkur finnst við velkomnir á Íslandi,” sagði Reitan.Smelltu á myndina til þess að stækka hana.