Áfram

29. desember 2006
Meirihluti hlynntur byggingu álvers á Bakka við Húsavík

Ný skoðanakönnun, sem Capacent Gallup hefur gert á Norðurlandi, leiðir í ljós að 58,2% íbúa eru hlynnt byggingu álvers á Bakka við Húsavík. Alls reyndust 27,7% andvíg áformum um álver en 14,1% svarenda voru hlutlaus. Ef aðeins er horft til viðhorfa Húsvíkinga kemur í ljós að 75,8% íbúa eru hlynnt hugsanlegu álveri en 17,9% andvíg. Tæplega 900 manns tóku þátt í könnuninni á Norðurlandi en hún er ein þriggja sem Capacent Gallup hefur unnið fyrir Alcoa Fjarðaál.

Viðhorf meirihluta svarenda til Alcoa Fjarðaáls var einnig jákvætt í Norðurlandskönnuninni. Þannig svöruðu 58,7% því til að þeir væru frekar eða mjög jákvæðir í garð fyrirtækisins. Athygli vekur að einungis 19,5% Norðlendinga eru neikvæðir í garð fyrirtækisins.

Í annarri könnun, sem Capacent Gallup framkvæmdi á Mið-Austurlandi, kemur í ljós að stuðningur við álversframkvæmdirnar og Alcoa Fjarðaál er afgerandi. Þannig svara 83,9% íbúa því til að þau séu jákvæð gagnvart fyrirtækinu og 82,2% eru hlynnt byggingu álvers í Reyðarfirði.

Í þriðju könnun Capacent Gallup, sem náði til íbúa á öllu landinu, reyndist nákvæmlega helmingur þátttakenda vera jákvæður í garð Alcoa Fjarðaáls eða 50%. Rúmur fjórðungur eða 26,8% reyndist neikvæður í garð fyrirtækisins og tæpur fjórðungur, 23,2%, var hlutlaus. Sé afstaða íbúa Norðausturkjördæmis til álversframkvæmda í Reyðarfirði skoðuð kemur í ljós að þrír af hverjum fjórum, eða 75%, eru hlynntir þeim. Alls reynast 75,9% íbúa kjördæmisins jákvæðir gagnvart Alcoa Fjarðaáli.

Þegar spurt var um viðhorf til álvers í Reyðarfirði reyndist 51% svarenda á landsvísu hlynnt framkvæmdinni en 29% andvíg. Hlutfall þeirra sem eru hlynntir byggingu álversins er ívið lægra nú en í könnun sem gerð var um svipað leyti fyrir fjórum árum. Þá var hlutfallið 53,7%. Hæst fór það í könnun í apríl 2004 er það var 65,2% en lægst í 50,2% í sumar þegar umræðan um Kárahnjúkavirkjun stóð sem hæst.

Nánari upplýsingar:Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls, sími 843 7709

Alcoa er fremsti framleiðandi heims á súráli, hrááli og unnum álvörum. Fyrirtækið framleiðir málma sem notaðir eru í margs konar iðnaði, s.s. við smíði samgöngutækja, í umbúðaverksmiðjum og byggingariðnaði. Einnig framleiðir fyrirtækið vínylveggplötur, hluti sem notaðir eru í rafkerfi bifreiða og ýmsan neytendavarning, s.s. Reynolds Wrap® álumbúðapappír, Alcoa® hjól og Baco® álpappír. Hjá fyrirtækinu starfa 129.000 manns í 400 starfsstöðvum í 42 löndum. Frekari upplýsingar um fyrirtækið má nálgast á vefslóðinni http://www.alcoa.com

viðhorf íbúa Norðurlands til álvers
velja (168 K)

viðhorfsrannsókn Gallup fyrir landið allt
velja (140 K)

Viðhorf íbúa Mið-Austurlands til álvers
velja (179 K)