Áfram

21. júní 2006
Uppbygging að Bakka - lykill að bjartri framtíð

„Álver og umhverfisvænt orkuver á N-Austurlandi munu skera úr um það hvort hundruð fjölskyldna í þessum landshluta geta litið björtum augum til framtíðar eða verða að lúta í lægra haldi og flytjast búferlum á suðvesturhornið. Málið er ekki flóknara,” segir Tryggvi Finnsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hf., í nýlegri grein í Morgunblaðinu.

Í greininni kemur Tryggvi inn á atvinnuþróun á svæðinu undanfarin ár og áratugi. Hann segir svæðið hafa verið í vörn, m.a. vegna breyttra atvinnuhátta. Af þeim sökum hafi fólki til dæmis fækkað talsvert á Húsavík. Hann er bjartsýnn fyrir hönd svæðisins í kjölfar undirritunar viljayfirlýsingar um könnun á möguleika byggingar 250 þúsund tonna álvers í landi Bakka norðan Húsavíkur. Tryggvi segir einnig í grein sinni:
 
„Áhrif  þessara framkvæmda á byggðaþróun í Þingeyjarsýslu verða afar jákvæð.  Þrátt fyrir öflugt starf að atvinnuþróun undanfarin ár og mikla grósku, t.d. í ferðaþjónustu, hefur íbúum á Húsavík fækkað um 250 manns á einum áratug eða sem svarar um100 fjölskyldum. Það munar um minna. Bregðast þarf við þessari alvarlegu byggðaröskun og snúa vörn í sókn. Byggð í Þingeyjarsýslu eins og víðast á landsbyggðinni hefur frá öndverðu grundvallast á náttúruauðlindum svæðisins. Þar ber hæst landbúnað og sjávarútveg.  Vegna tækniþróunar og  nýtingartakmarkana hefur fólki stórfækkað í þessum undirstöðuatvinnuvegum landsmanna.”
 
Og hann heldur áfram: „En betur má ef duga skal. Horfa verður til fleiri þátta ef á að takast að snúa þessari byggðaþróun við. Það er eðlilegt að hvert landssvæði skoði styrkleika sína og veikleika, meti hvar vannýttar auðlindir eru og hvar ný tækifæri liggja. Í Þingeyjarsýslu liggur beinast við að horfa til jarðhitans. Háhitasvæðin við Kröflu, á Þeistareykjum, í Bjarnarflagi og víðar í héraði hafa verið nýtt allt frá því á miðöldum.”
 
Undir lok greinar Tryggva segir: „Nú ætlum við Þingeyingar að taka þráðinn upp á ný og nýta háhitann til raforkuframleiðslu. Flytja orkuna út sem ál til hagkvæmra nota til vöruframleiðslu um allan heim í stað brennisteins sem fór fyrr á öldum til púðurgerðar.  Það vekur því athygli þegar andstæðingar atvinnuuppbyggingar af þessum toga hafa allt á hornum sér vegna þessara áforma. Þar sem ekki eru haldbær rök fyrir umhverfisspjöllum vegna þessara framkvæmda er gripið til gamalkunnra ófrægingaraðferða. Mönnum eru gerðar upp skoðanir og ósannindavefur spunninn úr engu um að áform séu allt önnur en sagt er og gagnkvæmt samkomulag ríkir um.“