Áfram

Hugsanlegt álver á Norðurlandi

Þann 17. maí 2005 sendi Alcoa bréf til Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðarráðherra, en í því lýsti fyrirtækið áhuga sínum á að kanna möguleika á uppbyggingu áliðnaðar á Norðurlandi. Sama dag kynnti iðnaðarráðherra bréfið fyrir ríkisstjórn Íslands sem hefur falið Fjárfestingarstofu að halda utan um framhald málsins.

Vegna aukinnar eftirspurnar eftir áli á heimsmarkaði hefur Alcoa á undanförnum árum verið að athuga ýmsa kosti hvað varðar byggingu nýrra álvera og er Ísland eitt þeirra landa sem litið er til í því sambandi. Samkvæmt þeirri stefnu fyrirtækisins að byggja upp hagkvæma, örugga og umhverfisvæna álframleiðslu víða um heim er einkum leitað til staða sem bjóða umhverfisvæna orku á samkeppnishæfu verði. Þessi sjónarmið voru höfð að leiðarljósi þegar ákvörðun um byggingu Fjarðaáls var tekin.
 
Í ofangreindu erindi Alcoa til íslenskra stjórnvalda felst ekki ákvörðun af hálfu fyrirtækisins um byggingu álvers á Norðurlandi, heldur er þar einungis lýst áhuga og vilja til að skoða þá möguleika sem kunna að vera fyrir hendi á svæðinu. Áður en slík ákvörðun er tekin þarf að fara fram vönduð undirbúningsvinna og afla þarf margvíslegra gagna, t.a.m. um mögulega staðsetningu, orkuöflun, aðgang að vinnuafli og umhverfis- og samfélagsáhrif. Einnig er ljóst að framkvæmdir myndu ekki hefjast fyrr en í fyrsta lagi árið 2008, þar sem svo margar stórframkvæmdir eru í gangi næstu 2-3 ár og stöðugleiki í íslensku efnahagslífi er mikilvægur.
 
Alcoa vill eiga gott samstarf við stjórnvöld og hagsmunaaðila með það að markmiði að kanna til hlítar möguleikann á því að reisa álver á Norðurlandi.