03. júní 2018

Árangursríkur hreinsunardagur Göngufélags Suðurfjarða

Einn af styrkjum Alcoa Fjarðaáls í vorúthlutun 2018 rann til hreinsunarverkefnis á vegum Göngufélags Suðurfjarða.

Hreinsunardagurinn var vel auglýstur, meðal annars á Facebook-síðu félagsins. Guðrún Gunnarsdóttir hjá Göngufélaginu segir að þátttakendur hafi verið á bilinu 40-50 manns.

„Mannskapurinn dreifðist víða,“ segir Guðrún, „til dæmis í fjörur á Stöðvarfirði og innst í Fáskrúðsfirðinum. Fólk hreinsaði innan bæjarmarkanna, smábátahöfnina, gil og læki. Flestir hafa orðið varir við það á samfélagsmiðlum og víðar að fólk er að taka til í kringum sig, meðal annars með „plokki“. Þannig að svona verkefni er hvetjandi og vindur upp á sig.“

Guðrún segir að miklu hafi munað um þátttöku Björgunarsveitarinnar Geisla sem tók tíu stór kör, dekk og fleiri stóra plasthluti úr fjörum í Stöðvarfirði.

„Veðrið var ágætt, bjart en nokkuð hvasst. Við grilluðum svo hamborgara og pylsur í mannskapinn seinnipart dags. Þetta var góður og skemmtilegur dagur og vakti athygli,“ segir Guðrún að lokum.

 

Hreinsunardagur_2
Hreinsunardagur_2
Hreinsunardagur_2
Hreinsunardagur_2
Hreinsunardagur_4.jpg

Hreinsunardagur_4.jpg
Hreinsunardagur_4.jpg