01. febrúar 2018

Alcoa Fjarðaál styrkir UNWomen á Íslandi í tilefni af #metoo bylgjunni

 

Síðustu vikur hefur verið staðið fyrir fundaröð hjá Alcoa Fjarðaáli undir merkjum #metoo byltingarinnar. Öllum starfsmönnum fyrirtækisins hefur verið boðið að taka þátt í fundum þar sem vinnustaðarmenning, kynbundin mismunun og áreitni voru í forgrunni.

Alls hafa farið fram 15 fundir til að gefa öllum starfsmönnum tækifæri á því að mæta. Fyrst var boðið upp á fundi fyrir allar konur í fyrirtækinu þar sem þær gátu deilt sögum og komið á framfæri í öruggu umhverfi ef þeim þótti þeim hafa verið mismunað sökum kyns á vinnustaðnum eða þær verið áreittar. Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur stýrði kvennafundunum ásamt kvenstjórnendum hjá Fjarðaáli. Því næst tóku við karlafundir þar sem Magnús Orri Schram stýrði fræðslu og umræðum um málefni kynjanna.

Eftir fundina hittust allir stjórnendur fyrirtækisins og fóru yfir stöðu mála og unnu saman að því að ákveða næstu skref og hvernig unnið verður áfram með þessi mál hjá fyrirtækinu. Fjarðaál starfar eftir þeirri hugmyndafræði að mikilvægt sé að huga stöðugt að umbótum og þessi málaflokkur er þar ekki undanskilinn.

Fjarðaál hefur lengi verið í fremstu röð fyrirtækja hér á landi í jafnréttismálum og fyrirtækið leggur mikinn metnað í að gera sitt besta þegar kemur að þeim málaflokki. Því þótti sjálfsagt að við myndum rýna vinnustaðarmenningu okkar með tilliti til kyns og hefur verið ákveðið að það verði eitt af aðalmarkmiðum fyrirtækisins á árinu að bæta vinnustaðarmenningu og tryggja þannig að öllum líði vel í vinnunni.

Í tilefni af þessari vinnu þótti viðeigandi að veita UNWomen styrk að upphæð 300 þúsund krónur sem félagið getur nýtt til góðra verka í þágu jafnréttismála. Fjarðál hefur áður starfað með UNWomen en árið 2015 var staðið fyrir HeForShe átaki hjá fyrirtækinu.

 

Handaband

Magnús Orri Schram stjórnarmaður í UNWomen tók við styrknum fyrir hönd félagsins frá nafna sínum Magnúsi Þór Ásmundssyni forstjóra Fjarðaáls. Á myndinni má sjá þá með einkennishúfur UNWomen á Íslandi, Fokk ofbeldi, umkringda stjórnendum hjá Fjarðaáli.

 

Allir
Það var mikill hugur í mannskapnum og allir af vilja gerðir að taka virkan þátt í #metoo.