02. október 2017

Fjölmenn ráðstefna um mannauðsmál á vegum Fjarðaáls

Föstudaginn 15. september stóð Alcoa Fjarðaál fyrir ráðstefnu um mannauðsmál en hún var haldin í Valaskjálf á Egilsstöðum og stóð frá 9:00 til 16:00. Aðgangur var ókeypis en áhugasamir þurftu að skrá sig fyrirfram. Fullbókað var á ráðstefnuna og komust færri að en vildu.

Úrval sérfræðinga á sviði mannauðsmála flutti fjölbreytt erindi og starfsmenn Fjarðaáls munu miðluðu sinni reynslu af hönnun og mönnun þessa stærsta iðnfyrirtækis á Íslandi.

Stefnumiðuð mannauðsstjórnun

Þau Guðný Björg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli og Steinþór Þórðarson, Capacent, sem áður var mannauðsstjóri hjá Alcoa, hófu ráðstefnuna með erindinu „Stefnumiðuð mannauðsstjórnun“ þar sem þau rifjuðu m.a. upp fyrstu árin þegar byrjað var að ráða í stöður hjá Fjarðaáli sem nú eru orðnar um 490. Þá var mikil þensla í efnahagslífinu og næstum ekkert atvinnuleysi en Fjarðaál hélt sínu striki og sýnin um góðan vinnustað lifði. Steinþór ræddi einnig hvort mannauðsstjórnun sé nægilega stefnumiðuð.

Gunnar Haugen, ráðgjafi hjá Capacent flutti erindi undir fyrirsögninni „Ertu eldflaugavísindamaður?– Frammistöðu- og árangursstjórnun í breyttum heimi.“  Hann sagði nauðsynlegt að greina á milli frammistöðumats og frammistöðustjórnunar og benti á að hin hefðbundnu frammistöðuviðtöl væru á undanhaldi og nú séu fyrirtæki í meira mæli að reiða sig á stutta samtalsfundi með starfsmönnum.

Helgun starfsmanna og virk endurgjöf

 „Helgun“ er orð sem oft var á vörum fundarmanna en þau Tómas Bjarnason og Vala Jónsdóttir, ráðgjafar hjá Gallup fluttu erindið „Hvernig virkja á mannauðinn – Lykilþættir helgunar.“ Þau sögðu að frábærir stjórnendur ættu það sameiginlegt að huga að helgun starfsfólks, sem aftur hefði mikil áhrif á árangur, því helgað starfsfólk er virkt og áhugasamt.

Þeir Hilmar Sigurbjörnsson og Hólmgrímur Bragason frá Alcoa Fjarðaáli fjölluðu einni um helgun, eða „Helgun, hlekkjun, slökun og kulnun í starfi.“ Með því að huga að lykilþáttum helgunar auka vinnustaðir líkurnar á að starfsmenn upplifi helgun. Við verðum líka hvert og eitt að hugsa um okkur sjálf, sögðu þeir, og hafa í huga að vinnan hefur áhrif á virkni og líðan utan vinnustaðarins og öfugt. Vinnuálag getur verið munurinn á því hvort við upplifum helgun eða hlekkjun í starfi en liðsvinna er þar mikilvæg.

Þau Haukur Ingi Guðnason og Marta Gall Jörgensen, ráðgjafar hjá Gallup fluttu fyrirlestur undir yfirsögninni „Árangursrík endurgjöf og styrkleikamiðuð nálgun.“ Þau nefndu að samkvæmt rannsókn Gallup eru aðeins 26% starfsfólks mjög sammála því að sú endurgjöf sem það fær hjálpi því að standa sig betur í vinnu. Endurgjöf getur virkjað varnarviðbrögð og orðið til þess að fólk hugsar fyrst og fremst um að gera ekki mistök. Lykillinn að árangursríkri stjórnun er að starfsfólk þekki styrkleika sína og hafi tækifæri til að nýta þá.

Mönnun, menntun og liðsheild

Tómas Bjarnason og Vala Jónsdóttir frá Gallup stigu aftur á stokk með erindinu „Staða mannauðsmála á Austurlandi – Niðurstöður nýrrar könnunar meðal fyrirtækja á Austurlandi.“ Könnunin var gerð í sumar til þess að greina helstu áskoranir í rekstri, umhverfi og mannauðsmálum á Austurlandi. Þegar spurt var um helstu áskoranir í mannauðsmálum nefndu flestir skort á starfsfólki og kjaramál komu þar næst á eftir.

María Ósk Kristmundsdóttir og Sigrún Birna Björnsdóttir hjá  Alcoa Fjarðaáli fjölluðu um þær vörður sem verða á leið fyrirtækisins í leit sinni að því besta. Samvinna fjölmargra aðila hefur verið lykillinn að góðum árangri Fjarðaáls í fræðslumálum en fyrirtækið hlaut menntaverðlaun atvinnulífsins 2017.  Ferlamiðað skipulag byggt á teymisvinnu og þjálfun skapar grundvöll fyrir sameiginlega hugmyndafræði Fjarðaáls um stöðugar umbætur.

Sigurjón Þórðarson, ráðgjafi hjá Nolta ræddi um liðsheild. Hann sagði mikinn mun á því hvort fólk ynni saman sem hópur eða lið á vinnustað. Hópur tekur við fyrirmælum frá stjórnanda og framkvæmir án mikilla samskipta. Liðsmenn eru hins vegar virkir og sýna frumvæði, hafa mikil samskipti sín á milli og stefna að sameiginlegum árangri. Sálrænt öryggi leyfir liðsmönnum að viðurkenna mistök og læra af þeim, leita aðstoðar og ræða hugmyndir opinskátt.

Svefngæði og sátt við lífið

 „Svefn og heilsa – Svefngæði“ var umræðuefni Erlings Jóhannssonar, prófessors við Háskóla Íslands. Mælt er því að fullorðnir sofi átta klukkustundir á sólarhring og unglingar þurfa meiri svefn, en mælingar á svefni íslenskra ungmenna sýna að meðalsvefn á virkum dögum er aðeins 6,2 klst. og um helgar 7,2 klst. Íslenskar rannsóknir á svefnmynstri eldri borgara sýndu hins vegar að heildarsvefntími var um átta klukkustundir á sólarhring óháð árstíma.

Sigurður Ólafsson frá Gagnráðum kynnti sáttar- og atferlismeðferð (SAM) sem er nýjasta svið hugrænnar atferlismeðferðar. SAM hjálpar okkur að vera meðvituð um það hvernig heilinn í okkur virkar og hvernig við getum lifað góðu lífi. Við höfum takmarkaða stjórn á hugsunum okkar og tilfinningum. Frekar en að slást við, flýja eða deyfa tilfinningar, er vænlegra að búa til pláss fyrir þær og sættast við þær. Við þurfum að skilja betur hvað skiptir okkur máli í lífinu og gera meira af því.

X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988
X1C1A5988