21. desember 2016

Starfsfólk Fjarðaáls í jólaskapi

Hjá Fjarðaáli hefur jólaundirbúningur staðið yfir undanfarinn mánuð. Þann 27. nóvember og 11. desember voru glæsilegar jólatrésskemmtanir í álverinu en þá voru 200 piparkökuhús gerð og jólasveinar komu í heimsókn. Sterk hefð hefur myndast fyrir skógarhöggi Sóma, starfsmannafélags álversins, fyrir jólin. Sómi bauð félagsmönnum að höggva eða saga sitt eigið jólatré hjá Sigrúnu Ólafsdóttur skógarbónda í Brekkugerði vestan við Lagarfljót,  þann 12. og 18. desember. Samhliða búskap og skógrækt vinnur Sigrún í kerskála Fjarðaáls.

Jafnframt hafa starfsmenn verið duglegir og hugmyndaríkir að skreyta vinnuumhverfi sitt á ýmsan hátt. Á aðalverkstæðinu, þar sem má segja að hjarta Fjarðaáls slái vegna þess að verkstæðið er í hringamiðju bygginganna á álverslóðinni, tók Anna Leja, sem kemur frá Póllandi og vinnur hjá Fjarðaþrifum, sig til og gerði mjög frumlegar jólaskreytingar. Hún bjó til skraut á jólatréð úr öryggisborðum og verkfærum úr álpappír, sem hún merkti starfsmönnum á aðalverkstæðinu. Einnig bjó hún til snjókarl úr plastglösum. Starfsmenn aðalverkstæðis tóku frumkvæði Önnu fegins höndum og gleðjast daglega yfir þessari upplyftingu á umhverfinu og hlýjum kveðjum frá Póllandi.

Anna og jólaskrautið
Anna Leja sýnir okkur jólaskrautið. Er þetta skiptilykill umvafinn áli?

 

Jól á aðalverkstæðinu
Starfsmenn aðalverkstæðis ásamt Önnu. Suðrænu plönturnar gefa andrúmsloftinu enn skemmtilegri blæ.

 

Snjókarl
Á spjaldinu hægra megin við snjókarlinn stendur „Til Íslendinga frá Pólverjum."