Framleiðslan 


Alcoa er í fararbroddi í áliðnaði. Ekkert fyrirtæki í heiminum hefur meiri reynslu af báxíð-námugreftri, súrálsframleiðslu og framleiðslu áls. Daglega eru framleidd á vegum Alcoa ríflega 9.500 tonn af áli sem notað er til að búa til hinar ýmsu vörur. Mikið af álinu fer í ýmiss konar iðnað, t.d. framleiðslu umbúða, byggingarefna og farartækja – allt frá bílum upp í geimflaugar. Af fullunnum vörum má nefna álvíra, álfelgur og álpappír. Sjá nánar um framleiðsluvörur á heimsvísu hér

 

Framleiðsla Alcoa Fjarðaáls
Alcoa Fjarðaál er nýjasta álver Alcoa og framleiðir 346.000 tonn af áli árlega eða tæplega 950 tonn á sólarhring. Um fjórðungur framleiðslunnar er fullunnir álvírar fyrir háspennustrengi. Gert er ráð fyrir því að um 90.000 tonn af álvír verði send á erlenda markaði árlega.  Fjarðaál framleiðir einnig gæðaál og álblöndur sem fara til frekari vinnslu á meginlandi Evrópu, m.a. til bílaframleiðslu.

 
Framleiðsluferlið


Hráefni
Vikulega leggjast stór flutningaskip að bryggju í höfninni á Mjóeyri við Reyðarfjörð. Þau flytja hráefni til álframleiðslu til landsins og afurðir á markaði erlendis. Helstu hráefni Fjarðaáls eru skaut sem koma frá rafskautaverksmiðju Alcoa í Mosjoen í Noregi og súrál sem flutt er frá vinnslustöðvum Alcoa víðs vegar að úr heiminum. Sum skipin koma alla leið frá Ástralíu. Fjarðaál notar um 660.000 tonn af súráli árlega.

 


Flutningaskipið Pine Arrow siglir inn Reyðarfjörð með fyrsta súrálið í mars 2007.

 

 

Uppskipun

Á hafnarbakkanum stendur risavaxinn krani. Hann sogar súrálið upp úr lestum skipanna og það er svo flutt eftir lokuðum færiböndum um 300 metra vegalengd í sérstakan geymi sem stendur ofan við höfnina. Geymirinn er risavaxinn og getur geymt allt að 85.000 tonn af súráli.

 


Risakraninn sogar súrál upp úr flutningaskipinu Pine Arrow.

 

 

Kerskálarnir
Súrálinu er dælt í rafgreiningarker í tveimur kerskálum. Kerin eru alls 336 og þar fer álframleiðslan fram. Rafmagn er notað til að kljúfa súrálið í hreint ál og súrefni í rafgreiningarlausn sem inniheldur meðal annars kríólít og  natríum-álflúroíð. Hreint, fljótandi ál fellur til botns í kerunum en súrefnið binst kolefni úr forskautunum í kerunum og myndar koltvísýring.

 


Annar kerskálinn í álveri Fjarðaáls. 

 

 

Skautsmiðjan
Forskautin í rafgreiningarkerum Fjarðaáls eru framleidd í Noregi en sett saman í sérstakri skautsmiðju Fjarðaáls. Í hverju rafgreiningarkeri eru 40 rafskaut og skipta þarf um þau á u.þ.b. 25 daga fresti. Það er því nóg um að vera í skautsmiðjunni á hverjum degi.

 


Skaut flutt með færibandi í skautsmiðjunni.

 

 

Steypuskálinn
Í hverju rafgreiningarkeri eru framleidd um 2,8 tonn af áli á sólarhring eða samtals um 940 tonn í öllu álverinu. Á 36 klukkustunda fresti er ál sogað upp úr hverju keri og flutt í deiglu yfir í steypuskálann. Í steypuskálanum eru fjórir ofnar fyrir geymslu og íblöndun álsins og hver þeirra tekur hundrað tonn. Þessir ofnar gera fyrirtækinu kleift að steypa stöðugt allan sólarhringinn í þau mót sem viðskiptavinir óska eftir. Um fjórðungur framleiðslu Fjarðaáls fer til fullvinnslu álvíra í steypuskálanum. Önnur framleiðsla er hreint gæðaál og ýmsar álblöndur sem steypt er í svokallaðar melmisstangir eða melmi. Hluti af álinu fer ekki í ofnana, heldur er er því hellt beint í mót í svokallaðri hringekju („Sow Caster“) sem steypir það í hleifa.

 


Hleifasteypuvélin („Sow Caster“) í steypuskála Fjarðaáls. 

 

 

Útskipun
Þá er vinnslunni lokið í álveri Fjarðaáls og álið tilbúið til flutnings á markaði. Stærstur hluti framleiðslunnar fer á markaði í Evrópu en lítið eitt til Bandaríkjanna. Álið er flutt úr steypuskálanum eftir öflugum færiböndum niður á Mjóeyrarhöfn þar sem það fer um borð í flutningaskip sem siglir með það til viðskiptavina erlendis. Þessir flutningar eru mjög umfangsmiklir og nefna má að útflutningur frá Íslandi jókst um fjórðung, í tonnum talið, með tilkomu Fjarðaáls.

 


Gámum með áli skipað um borð í skip sem flytur það til útlanda.

 

 Framleiðsluvörur Fjarðaáls

 


VÍRARÚLLUR

Um fjórðungur framleiðslu fyrirtækisins eru vírarúllur, en þær erum mjög verðmætar og skila þjóðinni góðum útflutningstekjum.

 

 


MÁLMSTANGIR

Fjarðaál framleiðir einnig málmstangir eða melmi, en í þeim eru álblöndur með málmum sem viðskiptavinir hafa óskað eftir.

 

 


BARRAR

Stór hluti af framleiðslu fyrirtækisins er í formi álbarra, sem vega 680 kg hver.

 

 


HLEIFAR

Hleifarnir sem Fjarðaál framleiðir, eru svipaðir í laginu og barrarnir, en heldur grófari, þar sem þeir eru „handsteyptir," þ.e. starfsmenn hella sjálfir áli beint úr deiglu í mótin.