Verðmæt uppfinning

 

Sjaldgæfara en silfur

Árið 1808 uppgötvaði Sir Humphry Davy frumefnið ál. Efnið finnst hvergi hreint í náttúrunni heldur aðeins í föstum efnasamböndum. Danska vísindamanninum Hans Christian Örsted tókst nokkru síðar að framleiða örfáa dropa af þessum málmi en lengi frameftir 19. öld tókst ekki að þróa aðferð til að vinna ál úr jarðvegi svo eitthvert gagn væri að. Ál var því dýrmætur og fágætur málmur, jafnvel sjaldgæfari en silfur. Það litla sem tókst að vinna af áli var mjög dýrt, hálft kíló kostaði 545 dollara um 1870. Árið 1884 var heildarframleiðsla áls í Bandaríkjunum aðeins 60-70 kg. 

 

Þegar hér var komið sögu, sýndi Frank Jewett, prófessor við Oberlin-háskólann í Ohio, efnafræðinemendum sínum lítinn álmola og sagði þeim að hver sá sem uppgötvaði hagkvæma aðferð til þess að framleiða þennan málm yrði ríkur.

Sögulegur atburður
Þetta kveikti áhuga eins nemenda hans, Charles Martin Hall. Allt frá 12 ára aldri hafði hann gert ýmsar tilraunir með málma í frumstæðri tilraunastofu í skúr á bak við heimili sitt. Þar naut hann aðstoðar eldri systur sinnar, Juliu Hall, sem var efnafræðingur líkt og Charles.

Að loknu háskólaprófi hélt Charles tilraunum sínum áfram og komst að því hvernig hægt væri að búa til áloxíð, eða súrál. Árið 1886 bjó hann til sína eigin deiglu með kríólítbaði sem innihélt súrál og sendi rafstraum gegnum kerið. Afurðin var storknaður kubbur sem Charles lét kólna og braut síðan niður með hamri. Var hann þá kominn með margar litlar kúlur úr hreinu áli. Þar með var kominn lykillinn að álframleiðslu.

 

Málmur án markaðar
Uppgötvunin markaði tímamót. Til þess að halda tilraununum áfram þurfti Charles Hall á frekara fjármagni að halda. Hópur iðnjöfra í Pennsylvaníu, undir forystu Alfreds E. Hunts, hafði trú á áformum hans og stofnaði í kjölfarið félagið „Pittsburgh Reduction Company“. Á vegum þess var reist lítil verksmiðja í Pittsburgh þar sem Charles og Arthur Vining Davis, eini starfsmaður hans héldu vinnu sinni áfram.

Á þakkargjörðardag 1888 framleiddu Charles og Arthur fyrsta verksmiðjuframleidda álið með tækninni sem Charles hafði fundið upp.

 

Innan skamms voru álhleifarnir farnir að hlaðast upp en hvergi bólaði á viðskiptavinum. Framleiðendur voru hikandi við að nota þetta óþekkta efni. Til að sýna fram á notagildi málmsins hóf Arthur að búa til stöku hluti úr áli eins og tekatla. Charles Hall hélt áfram að þróa framleiðslutæknina og gera álið ódýrara. Það tókst og á fimm árum, 1888-1893, fór verðið á pundi af áli úr 4,86 dollurum niður í 76 cent.

Viðskiptin tóku að blómstra og brátt var farið að framleiða ýmsa hluti úr áli svo sem eldunaráhöld, álpappír, víra og kapla, bílhluta og jafnvel hluta af vélinni sem knúði fyrsta flug Wrightbræðranna í Kitty Hawk.

 

Kominn tími á nýtt nafn
Árið 1907 var fyrirtækið orðið umsvifamikið, með báxíðnámur í Arkansas, súrálsverksmiðju í Illinois og þrjú álver í New York og Kanada. Eigendurnir ákváðu að breyta nafni fyrirtækisins til þess að endurspegla starfsemi þess og völdu „Aluminum Company of America.“ Eftir að starfsemin var orðin alþjóðleg var nafninu breytt í Alcoa Inc.
 
Skömmu áður en seinni heimsstyrjöldin skall á kostaði pundið af áli 20 cent og Alcoa framleiddi þá um 2.000 mismunandi vörutegundir. Eftispurnin tvöfaldaðist í stríðinu og sömuleiðis framleiðsla Alcoa. Ráðist var í miklar framkvæmdir til að auka framleiðslugetuna en þær voru að mestu leyti fjármagnaðar af ríkisstjórn Bandaríkjanna. Eftir stríð voru nýju verksmiðjurnar seldar til samkeppnisfyrirtækja Alcoa.

 

Stöðug þróun og breytingar
Á undanförnum áratugum hefur áliðnaðinum vaxið fiskur um hrygg. Alcoa hefur brugðist við aukinni samkeppni með því að þróa framleiðslutæknina, fullkomna vinnsluna, lækka kostnað, kynna breiðari framleiðslulínu, vinna nýja markaði og þróa áður óþekktar aðferðir í nýtingu náttúruauðlinda.
 
Undir lok síðustu aldar hafði Alcoa aukið starfsemi sína um allan heim með því að stækka verksmiðjur, semja við samstarfsaðila og kaupa fyrirtæki í Evrópu og Bandaríkjunum.

Ál er mikið notað í alls kyns umbúðir, í byggingariðnaði og sem íhlutir í farartæki eins og flugvélar og bíla svo eitthvað sé nefnt. Ál er uppistaðan í óteljandi hlutum og gerir þá bæði sterkari og öruggari, auk þess sem framleiðsla þeirra krefst minni orku, þeir eru léttari og það sem líklega er mest um vert: þeir eru endurnýtanlegir.

Margt hefur breyst frá fyrstu dögum álsins – eiginlega allt nema að frá fyrstu tíð til dagsins í dag hefur Alcoa verið í fararbroddi í framleiðslu áls í heiminum.

 

Meira um sögu Alcoa (á ensku)


  

 


Fyrsta vinnustofan

Teikning af fyrstu vinnustofu „Pittsburgh Reduction Company“ sem Charles Martin Hall setti upp en þarna má sjá ker úr smíðajárni, rafskaut á koparstöngum sem tengd eru koparfestingum ofan við kerin og á gólfinu eru nokkur hleifamót.

 

 

 


Charles Martin Hall

Stytta af Charles Martin Hall, sem gerð er úr áli, en hún er í „Kettering Hall of Science” við Oberlin-háskólann í Ohio. Charles var nemandi þar og Alcoa hefur alla tíð styrkt háskólann.